Útflutningsráð Íslands

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 14:37:57 (2698)

2000-12-05 14:37:57# 126. lþ. 40.8 fundur 324. mál: #A Útflutningsráð Íslands# (markaðsgjald) frv. 167/2000, PHB
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[14:37]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Þetta er lítið mál en angi af miklu stærra máli. Þetta er spurningin um hvort hægt sé að leggja skatta á atvinnulífið og aðra til að halda uppi starfsemi sem einhverjir vilja halda áfram án þess að spyrja að því hvort þeir sem greiða séu á sama máli. Þetta er eiginlega brot á félagafrelsinu sem tryggt er í stjórnarskránni og við þekkjum mörg dæmi um slíkt hér á landi.

Við höfum t.d. búvörugjald sem allir bændur eiga að greiða. Það virkar þannig að fátækir bændur sem ekki eiga veð borga búvörugjald svo að ríkir bændur sem eiga veð geti fengið lán í lánasjóðum. Við erum með iðnaðargjald sem er þannig að öll iðnfyrirtæki borga til félags síns, Samtaka iðnaðarins, hvort sem þau vilja vera í því félagi eða ekki. Við erum með ,,skylduaðild`` opinberra starfsmanna að BSRB. Þar er lagaskylda að greiða félagsgjald til hvort sem menn eru í samtökunum eða ekki. Við erum með styrki til Bændasamtakanna, einhvers klúbbhúss úti í bæ. Við erum með styrki á fjárlögum til ASÍ að mig minnir o.s.frv. Við höldum sem sagt uppi félagsstarfsemi samtaka sem ekki geta náð í félagsmenn með eðlilegum hætti.

Þetta er einn anginn af því. Þar fyrir utan er starfsemi Útflutningsráðs Íslands, sem er í raun ágætis starfsemi og allt í lagi með hana, í bullandi samkeppni við utanríkisþjónustuna. Ég hef miklar efasemdir um framlengingu á þessu gjaldi. Ég hefði viljað að þeir sem stunda félagastarf í landinu afli sér félaga með réttmætum hætti og brjóti ekki ákvæði stjórnarskrárinnar um félagafrelsi.