Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 14:50:22 (2704)

2000-12-05 14:50:22# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[14:50]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki orða bundist við þessa umræðu. Það kveður við nýjan tón í umræðu um fjármál sveitarfélaga enda mættur til leiks hv. þm. Vilhjálmur Egilsson. Hann lét í veðri vaka að e.t.v. væri of langt gengið í þessu frv., að ríkissjóður lækkaði tekjuskatt um 0,33% til að koma til móts við skattgreiðendur eins og hann orðaði það. Ber þá að skilja það þannig, herra forseti, ég beini þeirri spurningu til hv. þm., að það hefði átt að hækka skattana meira að hans áliti? Hefði með öðrum orðum engin tekjuskattslækkun orðið hefði hann fengið að ráða? Ber að skilja orð hans þannig?

Einnig mátti skilja orð hans svo að sveitarfélögin þyrftu ekkert á þessu að halda. Þau gætu ef þau vildu og kynnu til verka og hagað málum sínum þannig að tekjur og gjöld stæðust. Þá vil ég biðja hv. þm. að líta í skýrslu svokallaðrar tekjustofnanefndar þar sem sat m.a. kollegi hans á hinu háa Alþingi, hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir. Niðurstaðan varð einróma í tekjustofnanefndinni, þ.e. að sveitarfélögin þyrftu á bilinu 4--6 milljarða á ári hverju vegna aukinna verkefna, vegna breytinga á sköttum og á lögum og reglum hjá hinu háa Alþingi, sem hv. þm. hefur kannski verið framar öðrum þátttakandi í og haft forustu um. Um þetta deilir enginn. En það mátti skilja hv. þm. svo að sveitarfélögin þyrftu ekki á þessum fjármunum að halda. Þau gætu bara skaffað sjálf og sniðið sér stakk eftir vexti. Skildi ég rétt það sem hv. þm. talaði um áðan? Mér virtist mikill gorgeir í málflutningi hans.