Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 14:52:34 (2705)

2000-12-05 14:52:34# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[14:52]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að storka hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni á nokkurn hátt með ræðu minni. Megininntakið í málflutningi mínum er að opinberir aðilar þurfa að sjálfsögðu að gæta þess að tekjur og útgjöld standist á að mestu. Ég á ekki við að svo þurfi endilega að vera á hverju einasta ári en að jafnaði í gegnum hagsveifluna og til langs tíma er það nauðsynlegt.

Við höfum tekið eftir því að útgjaldastig sveitarfélaganna hefur hækkað. Það hefur komið fram í nefndarstarfi því sem hv. þm. gat um að sveitarfélögin þyrftu á því að halda að geta hækkað útsvarið. Hin almennu sjónarmið mundu vera þau, ekki síst í ljósi gagnrýni stjórnarandstæðinga á fjárlagaafgreiðslu og opinber fjármál yfirleitt, að of geyst hafi verið farið og of lítið aðhald verið í hinum opinbera búskap. Þess vegna velti ég því upp að það gæti verið gagnrýnisvert að ríkið yfirleitt lækkaði tekjuskatta á móti þessari hækkunarþörf hjá sveitarfélögunum, sem ég er alls ekki að gera lítið úr eða draga úr. Ef það ætti að einhverju leyti að gagnrýna þetta út frá hagstjórnarsjónarmiðum eða út frá aðhaldsskorti í ríkisfjármálum þá ætti frekar að gagnrýna okkur sem skipum meiri hlutann fyrir að lækka tekjuskatta á móti þessum útsvarshækkunum sem til eru komnar vegna útgjaldaþarfa sveitarfélaganna.