Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 17:09:39 (2720)

2000-12-05 17:09:39# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[17:09]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er klár og kvitt samsvörun á milli málflutnings Samfylkingarinnar í umræðu um ríkisfjármál og það mál sem hér um ræðir. Það er nefnilega mikið aðhald fólgið í því að auka ekki heildarskattbyrði opinberra aðila. Hins vegar er aðhaldsleysi fólgið í því þegar umframrekstri og umframkostnaði er einfaldlega ávísað á skattgreiðendur í landinu. Það er það sem ríkisstjórnin og þingmeirihlutinn eru að gera og það er því sem Samfylkingin er að andæfa. Við viljum nefnilega að ekki verði fleiri krónur í augnablikinu settar í þennan rekstur heldur verði um tilflutning fjármuna frá einum opinberum aðila til annars að ræða, frá ríkinu sem er aflögufært til sveitarfélaga sem þurfa á fjármunum að halda. Ef þetta er ekki aðhaldssemi og kórrétt afstaða, þá veit ég ekki hvað.

Hins vegar heyrði ég það, herra forseti, og mér þykir sem betur fer nokkuð risið tekið að lækka á forustumönnum stjórnarliða í þessari umræðu og er það vel. Ég held að þeir séu farnir að sjá ljósið og alvöru málsins. Hv. þm. lýsti því yfir að vitaskuld mundi ríkisstjórnin standa við þessa yfirlýsingu. En það er eins skýrt og það getur orðið að ríkisstjórnin stendur ekki við þessa yfirlýsingu ef það frv. sem hér er til umræðu verður samþykkt óbreytt. Þess vegna skildi ég hv. þm. þannig að hann væri fús til að ræða breytingar á því milli 2. og 3. umr. svo að ríkisstjórnin færi frá þessari yfirlýsingu ekki með skömm heldur með nokkurri reisn.