Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 17:16:23 (2723)

2000-12-05 17:16:23# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, RG
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[17:16]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Umræðan sem hér fer fram er afar athyglisverð fyrir margar sakir. Fyrst og fremst er hún athyglisverð fyrir þær sakir hvernig stjórnarliðarnir bregðast við umræðunni.

Herra forseti. Þegar við höfum fjallað hér í þessum sal um fjáraukalög, um tekjustofna sveitarfélaga og fjárlög, gerir maður sér grein fyrir því að það er hárétt sem fram kemur hjá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni. Það er farið að syrta í álinn hjá þessari ríkisstjórn. Stjórnarliðarnir bera það með sér hvernig þeir bregðast við umræðunni. Ríkisstjórnin axlar ekki ábyrgð á því sem henni ber og það skilar sér í gegnum alla umræðuna í þessum stóru málum.

Þau orð sem féllu hér fyrir nokkrum mínútum: ,,Við erum vinir ríkissjóðs``, voru í raun feikilega stór. Ég held að við munum halda svolítið í þau og ég ætla að gera það í minni ræðu. Hvernig halda vinir ríkissjóðs á málum og hvernig bera þeir sig að? Það ætla ég að skoða í umfjöllun minni um þessi mál.

Herra forseti. Ég ætla líka að taka fram að það er ekki klofningur í Samfylkingunni. Hjá Samfylkingunni og ríkisstjórninni er hins vegar gjörólíkur forgangur í skattlagningu. Það er tvennt ólíkt. Það birtist í tillögum okkar við fjárlagagerðina. Það birtist í umræðu okkar um þau mál sem ég hef vakið athygli á hér og það birtist líka í viðbrögðunum, viðbrögðum okkar við því sem hefur verið sagt af hálfu ASÍ. Hér hafa menn fundið hjá sér þörf til þess að draga framkvæmdastjóra ASÍ inn í þessa umræðu og reyna að tefla honum gegn þingmönnum Samfylkingarinnar með fáránlegum hætti vegna þess að ekki aðeins framkvæmdastjóri ASÍ heldur næstum allar efnahagsstofnanir í landinu hafa lýst því hversu slæmt er að lækka skatta í góðæri, en það gerði ríkisstjórnin.

Ríkisstjórnin er ekki að lenda í einhverri óvæntri stöðu núna. Nei, það var haustið 1998 sem efnahagsstofnanir greindu frá því í skýrslum sínum hvað mundi blasa við að óbreyttu. En það var þessi ríkisstjórn sem skellti skollaeyrum við því og það var þessi ríkisstjórn og fyrst og fremst oddviti hennar, hæstv. forsrh. Davíð Oddsson, sem kom fram fyrir skjöldu og talaði til þjóðar sinnar um að nú væri góðæri og að hann hefði búið það til. Að vísu heldur Framsfl. að Davíð Oddsson hafi búið til kreppuna kjörtímabilið á undan og Framsfl. búið til störfin kjörtímabilið á eftir. En hæstv. forsrh. hefur talað til sinnar þjóðar og sagt: Allt er gott meðan ég er oddviti ríkisstjórnar og þess vegna er góðæri meðan þið sjáið til mín hér. Þannig hefur verið haldið á málum. Þetta er ábyrgðin sem þessi ríkisstjórn hefur gripið til.

Það er grundvallarmunur á því að gagnrýna ríkisstjórn fyrir að lækka skatta í góðæri þegar hún á að vera að taka á málum eða að segja að menn vilji hækka skatta núna þegar verið er að flytja tekjustofna til sveitarfélaganna. Þetta er jafnlangt hvort frá öðru og hægri og vinstri.

Herra forseti. Ég ætla líka að leyfa mér áður en lengra er haldið, strax í upphafi máls míns, að nefna hver hefur verið gagnrýnisrödd ASÍ. Þar get ég vísað í varaforseta ASÍ sem hefur dregið upp skýra mynd af því fyrir stjórnmálamenn, vilji þeir á það hlusta, að Flóabandalagið vann ábyrgt eins og þeir segja sjálfir. Þeir spenntu bogann ekki of hátt í samningunum. En þeir fengu líka að heyra það, jafnvel frá félögum sínum, eftir að aðrir fóru að semja síðar og áttuðu sig betur á hvaða staða var uppi í fjármálum þjóðarinnar. Þeir hafa bent á að það eru orðnir margir mánuðir síðan þeir vöruðu við þróuninni í efnahagsmálum á fundi með ríkisstjórninni og að stjórnarliðar hafa aldrei nefnt þann hluta yfirlýsingar forsrh. og ríkisstjórnarinnar og kröfu Alþýðusambandsins á sínum tíma um að fjölþrepaskattkerfi yrði skoðað.

Ætli það hafi ekki eitthvað að segja í hreyfingum á skattprósentunni hvort við erum með fjölþrepaskattkerfi og menn reyni með einhverjum hætti að stýra því hverjir borga skatta eða að seilast sífellt í vasana á veikustu stéttunum og þeim sem minnst hafa, eins og þessi ríkisstjórn, þessir vinir ríkissjóðs eru að gera. Skyldi það skipta máli?

Þeir hafa margítrekað sagt að þeir séu ekki að tala um skattalækkun þegar þeir koma og gagnrýna ríkisstjórnina heldur að það verði ekki skattahækkun núna miðað við óbreytt ástand vegna kjarasamninga. Um þetta snýst málið að því leyti sem það snýr að launþegunum.

Herra forseti. Það kom fram í máli Guðmundar Árna Stefánssonar frá Samfylkingunni sem talaði á undan mér að skýrar línur væru mikilvægar í pólitíkinni. Hann var að benda á að þær hreyfingar í skattamálum sem hér er verið að fjalla um færa ríkisstjórninni eða leggja 2,5 milljarða á skattgreiðendur, nýja og eldri, miðað við tölurnar sem hann setti fram. Við skulum aðeins skoða hvað felst í þessu, ekki tölurnar sem slíkar, ég hef ekkert farið ofan í þær, heldur hvað felst í skattastefnu þessarar ríkisstjórnar vegna þess að stefna stjórnmálaflokka birtist ekki síst í því hvernig þeir beita sköttum sem stjórntæki, hvort þeir sem stjórna nota skattkerfið til að tryggja láglaunafólki afkomu og jafna kjör, hvort þeir tryggja að breiðu bökin beri sinn skerf af sameiginlegum rekstri þjóðarbúsins eða hvort þeir eru að hampa breiðu bökunum. Um þetta snýst pólitíkin, hvernig skattkerfið er notað sem stjórntæki, hvaða hópa menn ætla að verja og fyrir hvaða hópa þjóðfélagsins menn eru að starfa. Þetta eru skýru línurnar sem Guðmundur Árni Stefánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, var að draga áðan og þær verða æ skýrari með hverri umræðunni í þessum sal. Hvort heldur það er við fjárlagaumræðuna, fjáraukalögin, tekjustofnalögin eða núna þá er alveg ljóst fyrir hvaða hópa þessi ríkisstjórn er að vinna og fyrir hvaða hópa hún ætlar ekki að vinna. Hún er ekki að gæta að hag þeirra sem lakast eru settir.

Ég minnist orða hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar í gær þegar við vorum að ræða Framkvæmdasjóð fatlaðra sem nú hefur ekki lengur neinn tekjustofn af því það truflar svo fjárlögin sem hagstjórnartæki að vera að vesenast með markaða tekjustofna. Það er líka hluti af þessum skýru línum, þ.e. að það voru flokkar sem ákváðu að standa ætti vörð um ákveðna þætti í samfélaginu og það væri svo þýðingarmikið að ástæða væri til að þeim væru markaðir sérstakir tekjustofnar. Svo koma aðrir flokkar sem ákveða að það trufli fjárlögin sem hagstjórnartæki að sérstakir þættir í samfélaginu njóti markaðra tekjustofna.

Með þessum lögum sem við erum að fjalla um núna og öðrum lögum sem við höfum verið að ræða að undanförnu sannar þessi ríkisstjórn að hún er orðin fullkomin íhaldsstjórn. Hún strýkur breiðu bökin. Hún vinavæðir stofnanir og hún veitir til þess stórfé, samanber þegar hún breytti Húsnæðisstofnun í Íbúðalánasjóð og á tveimur árum er það búið að kosta skattborgarana 300 milljónir. Þetta fannst íhaldinu allt í lagi vegna þess að stundum hentar að bruðla. Við vitum alveg að það hlutu að liggja annarlegar ástæður að baki. En þetta kostaði 300 milljónir. Og það eru ekki sleggjudómar Samfylkingarinnar. Nei, það er staðfest af Ríkisendurskoðun með skýrslu í vor. Þessi ríkisstjórn einkavinavæðir ríkisfyrirtæki og svo seilist hún í veikustu vasana eftir smáaurum af því margt smátt gerir eitt stórt og af því að þau sem eru í stjórnarflokkunum eru vinir ríkissjóðs.

Nú skulum við skoða hvernig þessi ríkisstjórn notar skattkerfið. Í fyrsta lagi hefur það komið fram í máli Jóhönnu Sigurðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, hvernig ríkissjóður verður af gífurlegum tekjum með því að fresta söluhagnaði við sölu hlutabréfa eins og fest hefur verið í lögum og hún hefur fært fyrir því rök að það megi áætla að tap ríkissjóðs síðustu tvö ár hafi verið 8--9 milljarðar vegna þessa. Þetta er ekki stór hópur. Þetta er ekki jafnstór hópur og t.d. fatlaðir eða öryrkjar og þaðan af síður lægst launuðu hópar ASÍ. Nei, þetta eru 600--700 auðmenn sem eru stórir fjármagnseigendur. Við erum að tala þarna um stóran stokk. Við erum að tala um fjölmarga milljarða.

Við skulum skoða fleira. Æ fleiri stofna einkahlutafélög og við höfum fylgst svolítið með þeirri þróun vegna þess að æ fleiri ákveða að móta sitt eigið skattumhverfi, sé það unnt, m.a. með stofnun einkahlutafélaga. Ég tek fram að þetta fólk er ekki að svindla. Það er ekki að stela undan skatti. Það er að nýta sér fullkomlega löglegar leiðir til lægri skattheimtu samkvæmt lögum sem hafa verið sett í þessum sal og hafa verið lagfærð af og til þannig að þau geta þjónað fleirum.

Áður en ég kem nánar að því hvernig útfærslan getur orðið fyrir þann sem getur þannig ráðið skattumhverfi sínu ætla ég að rifja það upp þegar launamaður gekk um á meðal þingmanna og sýndi skattheimtuna á einstaklingunum í götunni hans. Þetta var gata sem ég þekki mjög vel í mínu bæjarfélagi. Þar voru átta hús hlið við hlið. Tveir voru milljón króna menn hvað skattheimtu varðaði. Þeir voru báðir ríkisstarfsmenn. Hinir borguðu ýmist ekkert eða kannski 70 þúsund. Sá sem borgaði mest borgaði 140 þúsund samtals í gjöld. En dæmi voru um að menn fengju borgað til baka frá ríkinu. Samt voru í spilinu miklar eignir, stór hús, bílar, mikil umsvif og greinilega góð afkoma. Auðvitað vitum við að þannig er það.

[17:30]

Í svari viðskrh. í haust við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um hve mörg hlutafélög og einkahlutafélög hafi verið skráð á árunum 1998, 1999 og 2000 og hvað þeim hafi fjölgað, kemur fram að bara frá árinu 1996 hefur þessum skráðu formum fjölgað úr 9.600 í 14.600. Það er gefið upp að u.þ.b. 90% af þessum séu einkahlutafélög sem þýðir að við erum með einkahlutafélög upp á milli 13 og 14 þúsund í dag og að fjölgunin nemur svona u.þ.b. 4.500--4.600 frá árinu 1996.

Af hverju er það gott fyrir þá sem eru í þannig tekjuumhverfi að geta stofnað einkahlutafélög? Við skulum fara í gegnum það. Um það fékk ég kennslustund hjá skattstjóra á sínum tíma. Einkahlutafélagið getur átt húsið. Sá er notar það greiðir hlunnindaskatt. Hann er lágur. Einkahlutafélagið getur átt bílinn eða bílana og rekið þá. Einkahlutafélagið getur borið ýmis útgjöld sem verða frádráttarbær frá hlutafélaginu en sem venjulegir skattgreiðendur eiga engan möguleika á að telja sem frádrátt á sinni skattskýrslu.

Sá sem er í þannig rekstri getur í raun ákveðið sér lág laun, kjósi hann svo. En þrátt fyrir að hann búi kannski við lág laun, formleg laun, mælir ekkert gegn því að hann taki út yfir höfuðstól eftir þörfum. Þetta fólk er ekki að brjóta lög. Það nýtir sér hagkvæma skattalöggjöf. Það ber þar með 10% skatt. Gangi hlutirnir vel er hægt að fjárfesta og verði arður af því sem fjárfest er í er borgaður 10% skattur af þeim arði. Þetta er fullkomlega löglegt. Það er fullkomlega sanngjarnt að þeir sem geti móti þannig skattumhverfi. En það er ofboðslega erfitt fyrir margan launamanninn sem borgar allt sem honum ber að verða vitni að því hvernig þetta kemur oft út.

Á borðum þingmanna er svar við fyrirspurn frá Jóhönnu Sigurðardóttur. Það kom á borðin í dag. Fyrirspurnin var á þessa leið, og ég bið þingmenn að leggja alveg sérstaklega vel við eyru núna:

,,1. Hve mörg af 20 kvótahæstu útgerðarfyrirtækjunum greiddu skatt á síðasta ári, sundurliðað eftir tekju-, eigna- og fjármagnstekjuskatti vegna áranna 1998 og 1999?

2. Hver var hagnaður eða tap þessara fyrirtækja á þessum árum, sundurliðað eftir árum, og hve háar voru bókfærðar eignir þeirra?``

Það er athyglisvert að skoða þetta svar, herra forseti. Ég hvet til þess að hver einasti þingmaður taki þetta svar af borðinu sínu, af því það kom á borðin í dag, og skoði það.

Kvótaeigendur voru samtals 266 árið 1998. Af þessum 266 borgar 71 tekjuskatt. Þeir 20 kvótahæstu eiga 185 þúsund þorskígildistonn rúmlega. Aðeins tveir þeirra greiða tekjuskatt, aðeins tveir af þeim 20 útgerðarmönnum sem eiga flest þorskígildi borga tekjuskatt. Auðvitað kemur hér ýmislegt fram, hve mörg fyrirtækjanna sýna hagnað, hverjar eignirnar eru samtals og hvort eigið fé er jákvætt og þar með um skuldir. Við vitum allt um það hvernig þessir hlutir koma út.

Svo skulum við skoða árið 1999. Þá eru þessir kvótaeigendur orðnir 271. 99 þeirra greiða skatt. Af 20 stærstu fyrirtækjunum sem eiga 185 þúsund þorskígildistonn greiða þrír tekjuskatt. Þrír þeirra greiða tekjuskatt. Þó eru tíu fyrirtækjanna með hagnað, fjögur með tap. Og svo kemur bókfærslan um eigið fé og eignir samtals og allt þetta sem menn benda á þegar þeir fara að réttlæta það að þeir séu ekki þátttakendur í samfélaginu okkar.

Lái mér hver sem vill þó að margt fólk verði undrandi á því eftir þá umræðu sem hefur farið fram á liðnum árum hvernig þessir aðilar taka þátt í tekjuskattsgreiðslunum hjá okkur. Af því að hér kemur fram að tveir af 20 stærstu og þrír af 20 stærstu kvótaeigendunum greiða ekki tekjuskatt sitt hvort árið, þá gæti ég rifjað upp ýmsar sögur úr bæjarfélögum þar sem menn voru að selja björgina úr bænum fyrir stórfé, fyrir fjárhæðir sem ekki höfðu áður þekkst í þeim bæjum, að maður tali ekki um bruðlið í kjölfarið þar sem hvert mannsbarn keyrði á fimm milljóna bíl og það var eytt og eytt og menn veittu sér óspart fyrir þessar miklu tekjur. Þetta er umhugsunarefni, herra forseti. Það er umhugsunarefni hvernig við höfum haldið á málum gagnvart ýmsum þeim sem við mundum ætlast til að legðu af mörkum til samreksturs okkar.

Snúum okkur svo að hinni hliðinni hjá vinum ríkissjóðs. Þeir eru búnir að verða sér úti um u.þ.b. 3,5 milljarða á ári síðustu ár með því að aftengja bótagreiðslur Tryggingastofnunar ríkisins við laun. Þeir eru búnir að hafa um 1,5 milljarða á ári af barnafólki með breytingum, en ætla núna að koma með leiðréttingu að hluta og finnst að þær leiðréttingar eigi að vera vigtaðar mjög á móti auknum sköttum. Þetta er mikið umhugsunarefni, herra forseti.

Ég nefndi áðan hvernig menn eyddu talsverðu fé í t.d. kerfisbreytingar í húsnæðisgeiranum sem hafa kostað 300 milljónir. Ekki bara kostaði sú breyting á stofnuninni sjálfri mikla peninga heldur fylgdu með mjög vanhugsaðar aðgerðir í útlánamálum Íbúðalánasjóðs. M.a. urðu þær til þess eins og hendi væri veifað að hætt var við allar félagslegar byggingar á vegum sveitarfélaganna á þessu svæði. Bara Reykjavík byggði árlega yfir 100 íbúðir. Ég þarf ekki að telja þetta upp. Það voru tugir hjá Kópavogi, tugir hjá Hafnarfirði, kannski ekki tugir hjá Garðabæ en nokkuð, og vaxandi fjöldi í Mosfellsbæ. Ætli megi ekki gera ráð fyrir því að á ári hafi verið byggðar hátt á þriðja hundrað íbúðir af sveitarfélögum hér á svæðinu.

Þessu var kippt í burtu eins og hendi væri veifað þannig að á tveimur árum vantaði alveg inn í húsnæðisöflunina u.þ.b. 600 íbúðir sem sveitarfélögin byggðu. Og það voru engir verktakar að taka við þessu. Það voru engir verktakar að taka við að byggja þennan fjölda íbúða sem sveitarfélögin höfðu byggt. En hæstv. félmrh. sagði: Nú eiga allir að fara út á markaðinn. En markaðurinn var ekki fyrir hendi.

Og hvað gerðist? Eftirspurn eftir húsnæði jókst. Verðið hækkaði. Fasteignamatið hækkaði. Fasteignagjöldin hækkuðu. Eignamörkin hækkuðu hjá þeim sem voru að fá frá ríkissjóði og ríkissjóður sparaði sér helling í vaxtabótum og barnabótum.

Að vísu verður að segjast til að halda öllu til haga að ríkissjóður ætlar að aftengja eignatenginguna við barnabætur þannig að þetta muni ekki gerast aftur. En sögð voru dæmi um það í sumar hvernig fólk sem alls ekki mátti við því var að missa tugi þúsunda sem það hafði gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun heimilis síns, m.a. einstæðar mæður, út af því að með aðgerðum þeim sem ég er að lýsa hækkuðu svokallaðar eignir fólksins.

Herra forseti. Það sem ég er að draga fram er hvert vinir ríkissjóðs sækja sér tekjur. Það hefur komið fram í allri umræðu að ríkisstjórnin ætlar núna að hækka skatta við það að flytja tekjustofna til sveitarfélaganna, að það skiptir mjög miklu máli hvar við erum stödd í hagsveiflunni þegar skattar eru annars vegar. Það skiptir mjög miklu máli. Ég veit að ég þarf ekki að lýsa því fyrir hv. formanni efh.- og viðskn. Ég tek það fram, herra forseti, af því að við eigum því ekki endilega að venjast að hér sjáist stjórnarliðar þegar við erum að ræða alvarleg mál, að það verður að segjast eins og er að ég er hálfpartinn fegin að sjá hér formann efh.- og viðskn. og hv. þm. Kristin H. Gunnarsson, þó að ég taki fram að mér finnst sjálfsagt að nefndarfólkið allt taki þátt í umræðunni þegar svo stór mál eru undir, þó að ég skilji alveg að viðbrögð þeirra séu fátækleg við gagnrýni okkar. Ég þarf hvorugum að kenna þessi fræði. Þeir eru báðir mjög lærðir í þeim efnum, góðir stærðfræðingar og kunna þetta. En það hvernig hvor um sig hefur brugðist við gagnrýninni ber samt ekki vott um mikla þekkingu. Það ber frekar vott um undanslátt.

Stéttarfélögin unnu ábyrgt. Þau spenntu bogann ekki of hátt. Þeim er ekki launað. Það er ekki verið að skoða breytingu á tekjuskattskerfinu. Það er ekki verið að endurskoða það með fjölþrepaskatt í huga og það er ekki hlustað á það þegar stéttarfélögin eru óróleg yfir því að með þessum breytingum mun það gerast að um 2.000 nýir skattgreiðendur koma inn við breytingu á skattleysismörkum og að það er lægst launaða fólkið sem nú fer að borga skatt. Nú fer það að gerast að jafnvel þeir sem ekkert hafa nema bætur almannatrygginga sem hafa verið skertar eins og ég hef lýst, verða farnir að greiða af þeim beinan skatt sem nemur tugum þúsunda á ári hverju. Örorkulífeyrir og tekjutrygging hefur dregist verulega aftur úr þróun lágmarkslauna og launavísitölu. Samt sem áður fer þetta fólk að borga skatt við það að skattleysismörkin síga.

Um þetta erum við að tala. Og af því að það barst í tal áðan að það væri rangt að ríkisstjórnin hefði verið að breyta skattleysismörkunum þá hefur það komið fram að skattleysismörkin hækka aðeins um 2,1%, sem er raunhækkun, á meðan þau hefðu þurft að hækka um 3% í ársbyrjun 2001 og aftur um 3% 2002. Hagdeild ASÍ er búin að fara yfir þetta og færir fyrir því fullgild rök.

Þetta eru staðreyndirnar sem liggja á borðinu, herra forseti. Það virðist ekki mikill munur á 2,1 og 3, en það munar öllu. Það munar því að þúsundir byrja að borga skatt af næstum engum tekjum.

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar var sett fram til að greiða fyrir kjarasamningum og hún gengur ekki eftir nema skattleysismörkin verði hækkuð. Það er alveg ljóst. Aðrir munu sækja það mál. En við bendum á það vegna þess að það hefur komið svo skýrt fram af fullkominni hógværð og fullkominni rökhyggju þeirra sem hafa talað til ríkisstjórnarinnar af hálfu stéttarfélaganna.

Herra forseti. Stéttarfélögin og ASÍ hafa lýst því yfir að þau séu tilbúin að setjast niður með ríkisstjórninni til að fara yfir það hvernig vinna megi bug á ofþenslunni. Ekki hefur verið hlustað á það. ASÍ telur, og hefur það komið fram í orðum varaformanns ASÍ og á blaðamannafundi þeirra, að það sé alveg á mörkunum að forsendur samninga séu brostnar. Mér finnst það alvarlegt. Ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum ætti að þykja það afar alvarlegt. ASÍ hefur bent á að þessar aðgerðir bæta ekki úr. Haldinn hefur verið blaðamannafundur til þess að benda á að hér er um nokkurra ára gjörning að ræða og það er um næstu áramót sem skattleysismörkin vigta. Þetta hafa þeir bent á og kallað eftir viðbrögðum sem engin eru af því að þeir sem á þá hlusta eru vinir ríkissjóðs og þeir sækja tekjurnar sínar í tómu vasana, en ekki til breiðu bakanna og í útþanda vasa þeirra sem mest hafa og mest berast á í þjóðfélaginu.

[17:45]

Herra forseti. Mér finnst að ég hafi komið inn á meginatriðin í þeirri gagnrýni sem við höfum haft uppi á það hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á þessum málum. Ég gæti staðið lengur og talað frá hjartanu um það sem mér finnst aðfinnsluvert hjá ríkisstjórninni. Ég ætla ekki að gera það. En ég ætla bara að nefna að oft eru viðhöfð fögur orð á hátíðarstund. Aðventan er gengin í garð og ríkisstjórnin hefur t.d. talað mjög fallega um aldraða. Þetta er fólkið sem byggði upp það samfélag sem við njótum svo góðs af núna. Þetta er fólkið sem eru höfð svo sterk orð um að eigi að njóta ævikvöldsins þegar talað er til þeirra á hátíðarstund. En það er m.a. þessi hópur sem mun koma í auknum mæli inn í skattgreiðslur með breytingum ríkisstjórnarinnar, það fólk sem hefur örlítið úr lífeyrissjóði, sem hefur samt tekið tekjutrygginguna af þeim, hefur þurft að borga skatta því að þeir hækka núna. Þeir sem hafa hangið upp undir mörkunum fara að borga. Þetta á bæði við um öryrkja og aldraða sem minnst hafa. Það eru 40% aldraðir sem hafa u.þ.b. fulla tekjutryggingu sem þýðir að þeir hafa ekkert úr lífeyrissjóði eða mjög lítið.

Herra forseti. Hvenær fara orð og athafnir saman? Ekki hjá þessari ríkisstjórn, a.m.k. ekki þegar hún er með blíðmælgi við þá sem lítið hafa. Þetta er það sem við erum að gagnrýna við þá stjórnarflokka sem sitja hér. Ég tek undir með hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni. Ég er furðu lostin yfir því hversu hrokafullir menn geta verið þegar þeir koma og svara fyrir þennan gjörning ríkisstjórnarinnar.