Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 17:49:50 (2725)

2000-12-05 17:49:50# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[17:49]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Sem dæmi um afleiðingar fyrirhugaðra breytinga nefnir ASÍ að árið 2003 hyrfi rétt tæplega fjórðungur af almennum launahækkunum þessa árs í skattahækkunina eina. Þá segir hv. þm. Vilhjálmur Egilsson: Þetta kemur ekki illa út fyrir skattgreiðendur almennt, kannski fyrir einhverja. Við erum að tala um þá sem lægst hafa og ég veit að þingmaðurinn hefur fengið að sjá þessa útreikninga í nefndinni.

Ég tók þátt í því á erfiðum tíma að liðka fyrir atvinnulífinu með ýmsum skattbreytingum til að skapa þar umhverfi. En þegar það var farið að skila sér sagði ég líka: Nú þarf að liðka fyrir hinum. Við erum ekki að tala um að liðkað sé fyrir atvinnulífinu þegar ég dreg það fram að í þúsundatali sé fólk að nýta sér lagaákvæði um einkahlutafélög til að lifa við 10% skatt meðan fjöldinn borgar hátt á fjórða tug skattprósenta af öllu sínu. Ég er að benda á að eitthvað sem við höfum sett í lög sé núna þannig að full ástæða sé til að endurskoða það og reyna að skapa einhvers konar jöfnuð og réttlæti í skattgreiðslum vegna þess að það er misrétti og óréttlæti sem gerir að verkum að fólk freistast til að borga fyrir svarta vinnu þegar það er að kaupa sér þjónustu og tekur þar með ekki þátt í því innra eftirliti sem opin samskipti og heiðarleg viðskipti eru.