Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 18:26:35 (2730)

2000-12-05 18:26:35# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[18:26]

Kristján L. Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek eftir því að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson vill ekkert ræða um fasteignaskattinn á einstaklinga. Hann þakkar fyrir skattalækkun á atvinnurekstur á landsbyggðinni sem ég gat sérstaklega um að væri það eina bitastæða í þessum tillögum. Atvinnureksturinn á landsbyggðinni þarf ekki að borga það í öðrum sköttum eins og á að ráðast á íbúana á landsbyggðinni vegna lækkunar fasteignaskatta af íbúðarhúsnæði.

Það er ansi athyglisvert að hv. þm. nefndi þetta ekkert. Ég vil nota tækifærið og spyrja hv. þm., formann efh.- og viðskn.: Mun efh.- og viðskn. láta kanna þetta líkt og gert er í þeirri bók sem ég vitnaði til um lækkun fasteignaskatta frá sveitarfélagi til sveitarfélags, í öllum sveitarfélögum í landinu? Mun efh.- og viðskn. beita sér fyrir því að láta skoða hvað þetta hefur í för með sér í hækkun útsvars í sumum sveitarfélögum? Ég vil nota tækifærið og spyrja hv. 4. þm. landsbyggðarkjördæmisins Norðurl. v. hvort hann vildi ekki beita sér fyrir því að þetta yrði skoðað þannig að við mundum sjá hver ávinningurinn yrði.

Hann talaði líka um hækkaðar barnabætur sem boðaðar eru. Það er náttúrlega ákaflega sérkennilegt að menn tala um að hækka barnabætur því að búið er að ganga á þær undanfarin ár af hæstv. ríkisstjórn og skerða þær svo mjög sem gert hefur verið og hirða stóran hluta af þeim, koma svo í mesta góðæri Íslandssögunnar og boða hækkaðar barnabætur. Það eru náttúrlega alger öfugmæli.

En ég vil geta þess að börn á Skagaströnd, Skagafirði, Siglufirði og foreldrar þeirra sem fá hærri barnabætur eru löngu búin að missa þær í hækkuðum þungaskatti vegna flutninga á aðföngum, m.a. matvöru, á þessa tilteknu staði vegna aðgerða sem hv. þm., formaður efh.- og viðskn., hefur beitt sér fyrir og fylgt hér úr hlaði eins og ég gat um. Hv. þm. nefndi ekki þungaskattshækkunina í andsvari sínu áðan. Hvað með hana, hv. þm.?