Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 18:49:09 (2734)

2000-12-05 18:49:09# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[18:49]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. innlegg hans í málið og spurningar hans.

Varðandi þá spurningu af hverju barnabætur eru hækkaðar og hvernig þær tengjast hinu er það að sjálfsögðu þannig að staða ríkissjóðs til að lækka skatta eða hækka barnabætur og gera hluti fer að sjálfsögðu eftir almennri stöðu. Ef einn skattur er hækkaður er svigrúm til að lækka annan. Að sjálfsögðu fer þetta líka eftir því útgjaldastigi sem ríkissjóður hefur og þarf að sjálfsögðu ekki að skýra það út fyrir hv. þm. að ef hin almenna prósenta væri lækkuð algerlega til móts við hækkun útsvarsins væri minna svigrúm til annarra hluta.

Hv. þm. nefndi markaða tekjustofna eða hvort skynsamlegt sé að vera með þá. Hv. þm. þekkir t.d. mjög vel einn tekjustofn sem er markaður og hefur m.a. runnið til þess að fjármagna starfsemi Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og sjómannasamtakanna og Landssambands ísl. útvegsmanna. Síðan hefur það verið í tilviki annarra tekjustofna að þar hafa gilt lög um þá. Í mörgum tilvikum hefur verið samþykkt á hverju ári að ekki eigi að fara eftir þeim lögum og lögunum í rauninni breytt til samræmis við það sem menn hafa ætlað sér að gera í viðkomandi málaflokkum.

Það sem mér þykir sorglegast í málflutningi hv. þm. er hvaða skilningsleysi kemur þar fram á skattlagningu atvinnulífsins.