Lokafjárlög 1998

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 20:45:26 (2742)

2000-12-05 20:45:26# 126. lþ. 40.11 fundur 260. mál: #A lokafjárlög 1998# frv., RG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[20:45]

Rannveig Guðmundsdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég skildi ekki þessa ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Ég vil stuðla að góðum þingstörfum og þykist viss um að ef fólk leggur sanngjarnt mat á þau þá komi það sér ekki illa fyrir mig.

Hitt er annað mál að þegar halda á fund í nefnd samhliða fundi í þingsal þá er gert um það sérstakt samkomulag. Það er ekki bara spurning um að þingnefndir sitji áfram. Í efh.- og viðskn. sitja þeir þingmenn Samfylkingarinnar sem taka þátt í umræðu um þetta mál. Þar er varaformaður Samfylkingarinnar á mælendaskrá. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kom hér fyrst og fremst til að tala til stjórnarandstöðunnar og hefur fullt leyfi til þess en þá þarf hún helst að eiga möguleika á að sitja í salnum. Við þetta hef ég gert athugasemd.

Ég veit vel að fjárln. hefur haft þá sérstöðu, herra forseti, að þurfa að halda fundi þó yfir standi þingfundir. Mér er líka kunnugt um að einn þingmanna minna í fjárln. ætlaði að taka til máls við 11. liðinn, lokafjárlög 1998. Ég vissi ekki annað en að nú ætti að taka þau á dagskrá. Ég held að það sé farsælt að við reynum að gera þetta með vinsemd og í sátt. Það þarf að halda vel á spöðunum fyrir jól. Það verður ekki gert með þeim hætti sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson talaði. Það kom mér á óvart að þingfundur skyldi settur meðan efh.- og viðskn. var að störfum og að hv. þm. skyldi taka til máls um það mál sem hér er á dagskrá. Það er fyllilega réttmætt og eðlilegt að ég gerði athugasemdir við það, herra forseti.

Ég met það mjög við forseta að hann skyldi fresta málinu. Mér finnst það drengilegt af honum að fresta því þar til efh.- og viðskn. lýkur fundi. Hins vegar er alveg ljóst, eftir samtal mitt við formann efh.- og viðskn., að hann ætlar að klára þann fund sem þar stendur. Hann hyggst ekki koma yfir í þinghúsið eða slíta fundi fyrr en hann hefur lokið verkefni sínu og segir að menn verði bara að meta það hvort unnt sé að ljúka því fyrir föstudag þegar taka á 3. umr. fjárlaga eða ekki.

Ég tel fulla ástæðu til þess, herra forseti, að gert verði örstutt hlé á þessum fundi og menn ráði ráðum sínum í stjórnarliðinu.