Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 21:48:47 (2746)

2000-12-05 21:48:47# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[21:48]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Nú er komið að lokum þessarar umræðu. Ég ætla ekki að vera langorður. Fram hafa komið mjög afdráttarlaus viðbrögð við lagafrumvörpum ríkisstjórnarinnar, bæði frv. um tekjustofna sveitarfélaga og frv. um tekjuskatt og eignarskatt sem hér er til umræðu en allir eru á því máli að líta beri á þessi frv. sem eina heild.

Þegar málin eru skoðuð heildstætt fela frv. í sér hækkun á tekjusköttum einstaklinga um 0,66 prósentustig. Þetta er gert án þess að persónuafslátturinn sé hækkaður og veldur því að skattleysismörkin lækka. (KHG: Persónuafsláttur er óbreyttur.) Persónuafslátturinn er óbreyttur. Persónuafslátturinn er ekki látinn hækka jafnframt því sem tekjuskatturinn hækkar, prósentan hækkar og það veldur því að skattleysismörkin lækka. Hafi ég mismælt mig þá er þetta sú meining sem ég vil að fram komi.

Breytingunum hefur verið mótmælt af hálfu verkalýðshreyfingarinnar og annarra almannasamtaka í landinu. Ég vil nota seinni ræðu mína til að fara þess á leit við hæstv. fjmrh. að hann svari þeirri gagnrýni sem fram hefur verið sett af hálfu ASÍ, BSRB, Öryrkjabandalagsins og Landssambands eldri borgara en öll þessi samtök hafa mótmælt því að skattleysismörkin verði lækkuð.

Sveitarfélögin í landinu hafa einnig sett fram mótmæli. Þau eru af nokkuð öðrum toga. Mótmæli sveitarfélaganna ganga fyrst og fremst út á að eðlilegt hefði verið að tekjuskattsprósentan hefði lækkað til jafns við heimildarákvæði til hækkunar útsvars. Þetta hefur verið rauði þráðurinn í mótmælum og gagnrýni sveitarfélaganna.

Mig langar til að beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. hvort um þetta hafi verið eining í ríkisstjórninni. Var það rætt við þingmenn í þingflokkunum, við þingmenn Sjálfstfl. og var það rætt við þingmenn Framsfl. að til stæði að lækka skattleysismörkin í landinu? Var mönnum gerð grein fyrir því að með þessum skattkerfisbreytingum mundi því fólki fjölga, lágtekjufólki sem yrði að greiða skatta? Á þriðja þúsund manns úr hópi láglaunafólks á Íslandi bætist í hóp skattgreiðenda við þessa breytingu, úr hópi öryrkja, aldraðra og láglaunafólks. Því mótmæla þessi samtök.

Í erindi frá Öryrkjabandalaginu 22. nóvember segir, með leyfi forseta:

,,Af þessum sökum er brýnna en nokkru sinni fyrr að létta skattbyrði af öryrkjum, hvort heldur það verður gert með því að hækka skattleysismörk verulega eða viðurkenna sérstöðu öryrkja með því að undanþiggja örorkulífeyri beinni skatttöku.``

Hér eru menn að tala um að hækka beri skattleysismörkin verulega. Niðurstaðan er hins vegar sú að menn ætla að lækka þau. Menn ætla að auka skattbyrðarnar á þennan hóp. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Var þingmönnum Sjálfstfl. og Framsfl. gerð grein fyrir þessu, að skattkerfisbreytingarnar mundu hafa þær afleiðingar að skattleysismörkin lækkuðu?

Ég vil spyrja hæstv. fjmrh.: Hefur það komið til umræðu í ríkisstjórninni og þingflokkunum að samfara þessum breytingum verði persónuafslátturinn hækkaður? Þetta mundi ekki þýða að skattbyrði launafólks yrði almennt ekki hækkuð vegna þess að hún hækkar með hærri skattprósentu. Samkvæmt þessum frv. mun skattprósentan hækka um 0,66 prósentustig ef heimildir til útsvarshækkunar verða almennt nýttar til hins ýtrasta. Skattbyrðin mun því hækka.

Hefur komið til greina að persónuafslátturinn verði hækkaður til þess að tryggja alltént að skattleysismörkin lækki ekki vegna þessara breytinga?

Í umræðunni hefur komið fram og reyndar liggja fyrir þinggögn um það, að tekjuskattsprósentan verði lækkuð enn meira en ráð er fyrir gert. Við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum boðað að verði sú tillaga felld þá munum við bera fram tillögu um hækkun á persónuafslætti. En hefur komið til greina, í stjórnarherbúðunum, að við sameinumst á þinginu um að samþykkja tillögu í þessa veru? Með þeirri spurningu lýk ég máli mínu.