Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 22:22:36 (2752)

2000-12-05 22:22:36# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[22:22]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki mjög trúverðugt af hálfu hæstv. fjmrh., bara af því að það á við núna, að ræða þetta mál eins og það sé á akademískum grunni og snúist um það hvort sveitarfélög eigi að bera pólitíska ábyrgð eður ei. Hann veit nákvæmlega eins og ég að sú ákvörðun sem tekin var um þetta tiltekna mál var vegna skuldaskila ríkis og sveitarfélaga og sumir flokksbræður hans og -systur hafa sagt hér á hinu háa Alþingi að um eiginlegan samning hafi verið að ræða. Og ég minni á hverjir það voru sem kynntu þá niðurstöðu. Það var formaður Sambands ísl. sveitarfélaga og hæstv. ráðherra sjálfur.

Hér var því verið að gera upp sakir og þess vegna er það ákaflega ódýrt og ég veit að hæstv. ráðherra meinar það ekki þegar hann ræðir bara um þetta svona sem sjálfval hjá sveitarfélögunum hér og þar á landinu hvort þau nýti sér þessar heimildir eður ei.

Ég vil hins vegar gagnspyrja og segja: Ef þetta er svona mikið smámál í skattalegu tilliti hvers vegna gengst þá ekki hæstv. ráðherra inn á þá litlu tillögu okkar um að lækka tekjuskattinn til jafns?