Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 22:28:56 (2758)

2000-12-05 22:28:56# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, Frsm. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[22:28]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra fer um víðan völl í þessu máli af því að hann er að reyna að skjóta sér undan ábyrgð í þessu efni. Við erum að tala um töluverða peninga. Fyrir liggur að lækkun ráðstöfunartekna á ári vegna skattahækkunar t.d. hjá manni með 90 þús. kr. tekjur á næsta ári er um 3.800 kr., þ.e. sem samsvarar launahækkun í tæpan einn og hálfan mánuð sem samið var um í kjarasamningum en hverfur í þessa skattahækkun. Þetta hefur ekkert með það að gera hvort sveitarfélögin eiga að hafa rúmt frelsi til að leggja á útsvar. Þetta snýst um það að ríkið hefur haft af sveitarfélögunum milljarða og aftur milljarða á umliðnum árum í tekjur og komið er samkomulag um að reyna að bæta þeim það en ríkið gerir það með því að láta aðra borga brúsann, þ.e. íbúa sveitarfélaganna, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjavík og á Reykjanesi. Um það snýst málið.

[22:30]

Það þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðherra að fara út um víðan völl í þessu máli. Skattleysismörkunum þarf að breyta til þess að forsendur kjarasamninga haldi. Það kemur fram í gögnum ASÍ sem fylgja með frá minni hlutanum að sú skattahækkun sem ríkið beitir sér fyrir grafi undan forsendum kjarasamninga og ríkisstjórnin gangi á bak orða sinna um þróun skattleysismarka í yfirlýsingu hennar frá 10. mars í ár í tengslum við kjarasamninga. Svo einfalt er málið.