Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 22:32:44 (2761)

2000-12-05 22:32:44# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[22:32]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ástæðan fyrir því að ég nefndi Reykjavíkurborg áðan sem dæmi var sú að það sagði ekki nokkur maður neitt þegar ákvörðun borgarstjórnarinnar í Reykjavík varð til þess að lækka skattleysismörkin. Þá sagði ekki nokkur maður neitt. Þessi ákvörðun um að hækka útsvarið leiddi til þess að skattfrelsismörkin, eins og við skilgreinum þau, lækkuðu. (ÖJ: Reykjavíkurborg ákvarðar ekki persónuafslátt.) Reykjavíkurborg ákvarðar hann ekki. Reykjavíkurborg ákveður sitt útsvarshlutfall sem fer inn í álagningarhlutfallið sem er hin breytan í þessu dæmi eins og hv. þm. veit.

Mér finnst mjög skrýtið að enginn, hvorki ASÍ né stjórnarandstaðan, skyldi taka það upp þá en nú, þegar þetta mál kemur upp af hálfu sveitarfélaganna að þessu sinni, rýkur fólk til að reyna að gera ríkisstjórnina tortryggilega. Mér finnst ekki fara vel á því.