Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 22:43:04 (2764)

2000-12-05 22:43:04# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[22:43]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég færði rök fyrir því í ræðu minni fyrr í kvöld að vegna stórfelldrar hækkunar á fasteignamati á höfuðborgarsvæðinu, um liðlega þriðjung á tveimur árum, hefðu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sótt sér auknar tekjur, vegna þess að álagningarstuðlarnir voru ekki hreyfðir til mótvægis, sem nemur 1.200--1.300 millj. kr. á ári. Það eru tekjur sem sveitarfélögin leggja á íbúa sína án tillits til tekna. Þar er aðeins farið eftir mati eigna. Ég vil því benda á þau rök að hugsanlega séu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu búin að fá þær tekjur sem þeim er ætlað að geta sótt með því að hækka útsvarið um 0,33%. Útsvarshækkunin á að gefa öllum sveitarfélögum landsins 1.250 millj. kr. þannig að fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu er það talsvert lægri fjárhæð.

Þar sem sveitarfélögin hafa fengið auknar tekjur á undanförnum tveimur árum má með nokkrum rökum benda á að sveitarfélögin hér þurfi ekki að nýta sér útsvarshækkunina til fulls. Ef þau gera það þá eru þau að bæta stöðu sína sem því nemur umfram sveitarfélög á landsbyggðinni.

Ég vil líka benda hv. þm. á að þegar þetta gerðist í fyrra og hittiðfyrra þá kom ekki fram nein krafa um að ríkissjóður mætti þessari auknu skattheimtu sveitarfélaganna með því að lækka tekjuskatt.