Fjáröflun til vegagerðar

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 23:13:59 (2771)

2000-12-05 23:13:59# 126. lþ. 40.10 fundur 283. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (þungaskattur) frv. 165/2000, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[23:13]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er ánægjulegt að það hefur orðið þvílík fjölgun dísilbíla í landinu en það er ekki víst að það hafi endilega orðið á kostnað fjölgunar bensínbíla, erfitt að sjá það út því að bifreiðum hefur almennt fjölgað mjög mikið. En það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra, mjög mikið hefur verið hringlað með þessa gjaldtöku og þetta frv. er vissulega spor í rétta átt. Það sem ég vildi sagt hafa áðan var það að sú breyting sem gerð var er talin hafa þýtt um 30--40% hækkun á flutningskostnaði á lengstu leiðunum og menn hafa talað um það, m.a. á fundum sem við í Samfylkingunni höfum verið á á undanförnum vikum.

Ég er sjálf sannfærð um að þessari umræðu mun ekkert ljúka fyrr en gjaldið hefur verið tekið inn í olíuna, það hljóti að vera skynsamlegasta leiðin og oft og tíðum finnst mér einu rökin fyrir því að það er ekki gert vera þau að olíufélögin telji að þetta hafi í för með sér svo mikinn kostnað. En mér sýnist á þeim tölum sem koma frá þeim um afkomu að þau ættu að geta staðið undir þeim kostnaði. Það er skynsamlegasta leiðin þannig að líklega er þessu hringli með gjaldtöku ekki lokið en þetta er þó a.m.k. skynsamlegt skref stigið í rétta átt.