Jöfnunargjald vegna alþjónustu árið 2001

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 23:17:16 (2772)

2000-12-05 23:17:16# 126. lþ. 40.17 fundur 318. mál: #A jöfnunargjald vegna alþjónustu árið 2001# frv. 160/2000, samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[23:17]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til nýrra laga um jöfnunargjald vegna alþjónustu árið 2001. Markmið frv. er að fjármagna alþjónustuskyldur sem hvíla á Neyðarlínunni ehf.

Samkvæmt IV. kafla fjarskiptalaga getur Póst- og fjarskiptastofnun ákveðið að fjarskiptafyrirtæki veiti svokallaða alþjónustu. Umfang hennar er skilgreint í 13. gr. laganna og ákvæðum reglugerðar nr. 641/2000, um alþjónustu. Fyrirtæki sem veitir slíka þjónustu á að ákveðnum skilyrðum uppfylltum rétt á eðlilegu endurgjaldi fyrir þá starfsemi sem um ræðir. Frv. þetta byggist á mati Póst- og fjarskiptastofnunar á fjárþörf Neyðarlínunnar vegna alþjónustu.

Lagt er til að jöfnunargjald verði ákveðið 0,12% fyrir árið 2001. Miðað er við veltu gjaldskyldra aðila á árinu 1999 og fjárþörf árið 2001. Í forsendum er gert ráð fyrir 5% lægri veltu árið 2001 en var 1999 vegna gjaldskrárlækkana sem leiða af harðnandi samkeppni. Stofninn er því áætlaður um 20 milljarðar kr. Nauðsynleg álagsprósenta telst vera 0,10% en er hækkuð í 0,12% til að reiknað sé með vanhöldum.

Þar sem skattayfirvöld munu hafa innheimtu gjaldsins með höndum hefur verið haft samráð við embætti ríkisskattstjóra við undirbúning frv.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. samgn.