Samningur um bann við notkun jarðsprengna

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 23:25:24 (2775)

2000-12-05 23:25:24# 126. lþ. 40.12 fundur 261. mál: #A samningur um bann við notkun jarðsprengna# frv., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[23:25]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Ég kem fyrst og fremst upp til þess að vekja athygli á nokkrum staðreyndum um jarðsprengjur og lagningu þeirra víða um heiminn þó að ég verði nú samt að segja eins og er að ég er nokkuð undrandi á því að mælt skuli vera fyrir þessu máli svona seint um kvöld í byrjun desember. En það eru nú eflaust einhverjar góðar skýringar á því.

Mig langaði til þess að nota þetta tækifæri, herra forseti, til að vekja athygli hv. þingmanna á nokkrum staðreyndum. Þær eru þessar:

Jarðsprengjur eru líklega einhver ódýrustu morðtól sem hægt er að framleiða nú um stundir á jörðinni. Hvert stykki kostar sem samsvarar u.þ.b. 300--900 ísl. kr. í framleiðslu. Hins vegar fer hundraðfaldur sá kostnaður a.m.k. í eyðingu þeirra. Að eyða einni jarðsprengju kostar á bilinu 26--90 þús. ísl. kr. þannig að það sjá allir í hendi sér hvílíkar upphæðir eru hér á ferðinni og hversu illviðráðanlegt vandamál þetta er.

Ég hef það frá heimildarmönnum í Rauða kross hreyfingunni að verði allri framleiðslu jarðsprengna hætt núna árið 2000 muni samt taka 1100 ár eða til ársins 3100 að fjarlægja þær allar af yfirborði jarðar og gera þær óskaðlegar.

Í hverjum mánuði látast u.þ.b. tvö þúsund manns við að stíga á jarðsprengju og það er jafnvel haldið að um fleiri sé að ræða vegna þess að oft er ekki tilkynnt um dauðsföll af þessu tagi og stundum verður fólk fyrir skaða eða limlestingum af völdum jarðsprengna en kemst ekki til þess að láta vita af sér.

Þessar staðreyndir eru hreint út sagt skelfilegar, herra forseti, og mér þótti rétt að vekja athygli á þeim í tilefni þessarar umræðu og vekja athygli hv. þingmanna á því hversu alvarlegt mál er hér á ferðinni.