Samningur um bann við notkun jarðsprengna

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 23:27:36 (2776)

2000-12-05 23:27:36# 126. lþ. 40.12 fundur 261. mál: #A samningur um bann við notkun jarðsprengna# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[23:27]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil einnig í örfáum orðum lýsa stuðningi við þetta lagafrv. Með frv. er lagt til að sett verði nauðsynleg lagaákvæði til að Íslendingar geti fullnægt skuldbindingum um bann við notkun, birgðasöfnun, framleiðslu og flutning á jarðsprengjum.

Ég vil gera orð síðasta ræðumanns að mínum. Þar kom fram hve alvarleg ógn stafar af jarðsprengjum. Það er áhyggjuefni að nokkur helstu stórveldi heimsins treysta sér ekki til þess að undirrita þennan samning, en samningurinn hefur verið fullgiltur af hálfu 107 ríkja. Hann var undirritaður af 133 ríkjum. Á meðal þeirra ríkja sem ekki hafa gerst aðilar að þessum samningi eru Bandaríkin, Indland, Kína, Rússland og Suður-Kórea. Það er að sjálfsögðu áhyggjuefni að þessi miklu herveldi heimsins skuli ekki treysta sér til að gerast aðilar að þessum samningi.

Herra forseti. Ég kvaddi mér fyrst og fremst hljóðs til þess að lýsa eindregnum stuðningi við þetta lagafrv.