Staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 23:35:03 (2779)

2000-12-05 23:35:03# 126. lþ. 40.14 fundur 285. mál: #A staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar# (Þingvallaprestakall) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[23:35]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Þetta er afskaplega einfalt frv. og sakleysislegt og virkar eins og það sé flutt í fullkominni sátt og um það séu engar deilur. En þrátt fyrir það vakna spurningar hjá mér og ég ætla að skýra það hvernig á þeim stendur.

Það er að sjálfsögðu rétt sem fram kemur í máli hæstv. dómsmrh. að í 50. gr. er kveðið á um að kirkjuþing setji starfsreglur skv. 59. gr. um skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma, og að 51. gr. er alveg sértæk um að Þingvallaprestakalli gegni prestur sem ráðherra skipar til fimm ára í senn að fengnum tillögum biskups og Þingvallanefndar.

Ég bar fyrir stuttu fram fyrirspurn hér á hv. Alþingi um Þingvallabæinn og það var að gefnu tilefni. Hún var um hver færi með eignar- og yfirráð yfir bænum. Ég fékk þau svör frá hæstv. forsrh. að kirkjuþing hefði ályktað að halda beri úti prestakalli tengdu Þingvöllum og að þar sitji prestur og það sé út af fyrir sig ,,málefni kirkjunnar að ákveða það þrátt fyrir að prestakallið sé orðið afar lítið`` svo ég vísi beint í orð forsrh. í svari hans til mín í þeirri umræðu.

Rétt er það að tillaga á kirkjuþingi um að sóknarprestur á Þingvöllum mundi sinna að einhverju leyti Suðurlandi --- þetta kom fram í fréttum --- var afgreidd á þann veg að áfram verði prestssetur á Þingvöllum og þar sem tillagan var afgreidd þannig mátti álykta sem svo að menn vildu ekki fara nýjar leiðir. Þess vegna spurði ég hæstv. forsrh.: Ef ríkisstjórnin ætlar að taka Þingvallabæinn til þeirra afnota sem hæstv. ráðherra hefur nefnt hér, hvernig á þá að leysa mál kirkjunnar? Mun ríkisstjórnin e.t.v. setja upp prestssetur utan þinghelginnar? Og er það verkefni Þingvallanefndar að leysa þetta mál, þ.e. prestssetursmálið og má skilja það svo að Þingvallanefndin taki við þeim spurningum sem ég ber fram?

Við þeim komu ekki svör í umræðu um fyrirspurn á Alþingi og þær héngu því eftir og þeim er ósvarað. En ljóst er, miðað við þær upplýsingar sem fram komu á kirkjuþingi, að tillaga um að sóknarprestur á Þingvöllum mundi sinna að einhverju leyti Suðurlandi er afgreidd þannig að áfram verði prestssetur á Þingvöllum. Búið er að taka Þingvallabæinn undir af ríkisstjórnarinnar hálfu, engin svör liggja fyrir um það hvort prestssetur verði á Þingvöllum, prestakallið er lítið en það er samt kirkjan sem ræður því samkvæmt 50. gr. hvort þarna verði sókn, prestakall eða hvort þarna sitji prestur.

Mér finnst mjög erfitt eftir þá umræðu sem þegar hefur farið fram að hér sé kynnt eitt lítið, laglegt frv. þar sem þess er getið að fella eigi út 51. gr. af því að það eigi ekki lengur að vera þannig að Þingvallanefnd velji í embætti eða að verið sé að blanda saman vali á presti og Þingvallanefndinni. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Hvernig er þetta mál vaxið? Því að í fyrra skiptið beindi ég spurningum til forsrh., hann gat að sjálfsögðu eingöngu svarað því sem lýtur að staðarhaldi á Þingvöllum en nú hef ég tækifæri til að beina sömu spurningum til hæstv. dóms.- og kirkjumrh. og þá hlýtur það að vera að nú liggi fyrir svör um hvernig það verður leyst ef kirkjan ákveður að þarna verði áfram prestur eins og skilja má á afgreiðslu kirkjuþings.

Þetta eru spurningar mínar til hæstv. dóms.- og kirkjumrh.