Staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 23:42:38 (2782)

2000-12-05 23:42:38# 126. lþ. 40.14 fundur 285. mál: #A staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar# (Þingvallaprestakall) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[23:42]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég hef nokkrar efasemdir um það frv. sem hæstv. ráðherra hefur kynnt. Það er að sönnu eins og fram hefur komið ákaflega einfalt í sniðum, og eins og hæstv. kirkjumrh. sagði væri þetta til einföldunar og samræmingar í skipan þessara mála. Hæstv. ráðherra lagði einnig áherslu á að á kirkjuþingi í október sl. hefði verið samþykkt að þessi tiltekna 51. gr. yrði felld brott úr lögunum.

Herra forseti. Óhjákvæmilegt er annað en að rifja það upp að frá því í október sl. hefur farið fram opinber umræða um þetta mál milli kirkjunnar manna með biskupinn yfir Íslandi í broddi fylkingar annars vegar og Þingvallanefndar hins vegar þar sem fyrir nefndinni fer hæstv. menntmrh. Það fór ekki fram hjá nokkrum manni sem hefur fylgst með þeim orðræðum þessara tveggja aðila að þeir eru ekki allsendis sáttir við framgang mála. Það er því alveg óviðunandi að hæstv. kirkjumrh. komi hér með jafnmikilvægan þátt þessa máls og hér um ræðir inn í þessa umræðu og ætli að skila auðu. Það er auðvitað ekki hægt að una við það.

Þess vegna vil ég í fyrsta lagi árétta þær fyrirspurnir sem komu frá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur um þessi efni og ég vil einnig bæta nokkrum atriðum við og raunar taka það fram að síðast í dag átti ég samtal við biskupinn yfir Íslandi um þetta atriði og vildi gaumgæfa það til að taka af öll tvímæli hvort einhver sáttagjörð væri á ferðinni um þau álitamál sem uppi voru milli Þingvallanefndar og íslensku þjóðkirkjunnar. Hann sagði svo ekki vera. Ég átti satt að segja von á því að þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir frv. að hún hefði kannski eitthvað til málanna að leggja til að upplýsa þingheim um hvort einhver lausn væri í sjónmáli á því vandamáli sem upp hefur komið. Ég vil árétta það og enn og aftur kalla eftir því.

[23:45]

Hér er því slegið föstu í greinargerð með frv. sem fer mjög saman við málflutning hæstv. menntmrh., formanns Þingvallanefndar, um þetta sama mál að engin haldbær rök standi til þess að veita prestsembætti á þessum stað með öðrum hætti en almennt gildir. Ég vil hins vegar taka undir aðra setningu úr sömu greinargerð þar sem vitnað er til sannanlegrar sögulegrar sérstöðu þessa staðar. Ég veit mætavel að ekki hefur verið prestur á Þingvöllum frá örófi alda. En við þingmenn vitum líka að tengsl kristni og Þingvalla hafa verið meira og minna óslitin í þúsund ár. Ég velti því fyrir mér og vil vera nokkuð skýr á því, hvert menn stefna stöðu kirkju á þessum stað, stöðu prests á þessum stað, bæði hvað varðar ráðningu hans og þjónustuhlutverk við staðinn og þennan litla söfnuð. Ég vil þá einkum og sér í lagi halda mig við staðinn.

Ég vil einnig velta því fyrir mér og spyrja hæstv. kirkjumrh. hvort menn hafi eitthvað gaumgæft þetta í þessari umræðu hvort unnt væri að koma fyrir prestsbústaði í nálægð kirkjunnar, fari mál svo sem allt bendir til að Þingvallabærinn verði nýttur til annars, nefnilega til ráðstöfunar fyrir ríkisstjórnina. Ég ætla út af fyrir sig ekkert að gera frekar athugasemdir við það, vel getur verið að öll rök standi til þess. Hins vegar vil ég spyrja hvort menn hafi skoðað og gaumgæft --- fari kirkjan fram á það --- hvort hægt verði að koma fyrir látlausu prestssetri á þessum reit, ekki fjarri kirkjunni á Þingvöllum? Mun kirkjumrh. koma með tillögur um það, beita sér fyrir því sem slík að það geti náð fram að ganga í góðu samkomulagi við Þingvallanefnd? Ég held að það sé mjög mikilvægur þáttur svo ég taki hann sérstaklega út úr.

Ég held að enginn bragur sé á því að prestur á Þingvöllum hafi búsetu einhvers staðar annars staðar. Ég held að það sé enginn stæll á því, fyrirgefið slettuna. Vissulega er sjálfsagt að skoða ýmsar hugmyndir, m.a. þær sem ég hef heyrt fleygt að tengja betur saman vígslubiskupinn í Skálholti og Þingvelli og kanna það og reifa hvort einhvers konar samspil þjónustu þessara tveggja sögufrægu staða geti átt sér stað. Ég er til viðræðu um að hlusta á slík viðhorf ef menn hafa skoðað þau niður í kjölinn. En mér finnst dálítið stórt mál og meira en einnar messu virði hér seint á kvöldi að slá af prest á Þingvöllum því það er það sem er í raun verið að gera, því miður. Mér finnst þessi heildarsamræming um skipan presta og prestakalla hringinn í kringum landið ekki endilega eiga við þegar Þingvellir eru annars vegar. Ég er ekkert endilega sannfærður um að þau rök standist nánari skoðun. Ég er ekki viss um að það frv. sem hér hefur verið kynnt eigi endilega rétt á sér, a.m.k. ekki svo lengi sem menn hafa ekki svör við ýmsum áleitnum spurningum sem eru uppi nú þegar við 1. umr. málsins.

Það kann vel að vera að menn hafi haft misjafna reynslu af því að prestur væri jafnframt staðarhaldari á Þingvöllum. Það er auðvitað eins og það er, sumum finnst hafa tekist býsna vel til, öðrum miður. Það er vafalaust þannig að það fer mikið eftir því fólki sem gegnt hefur þeim störfum í gegnum tíðina, en sem fyrirkomulag finnst mér það ekkert passa mjög illa saman að prestur hafi með höndum að sinna jöfnum höndum starfi staðarhaldara og fræðslustjóra á Þingvöllum fyrir gesti og gangandi og geti jafnframt sinnt messugjörð. Ég sé ákveðið hagræði í því nú á síðustu tímum þegar menn vilja spara peninga og sé ekkert sérstakan sparnað fólginn í því að Þingvallanefndin hafi sérstakan staðarhaldara á sínum snærum, borgaðan af ríkissjóði og síðan sé kirkjan knúin til þess að halda úti sjálfstæðum presti til að sinna svipuðum störfum svona með köflum a.m.k.

Herra forseti. Við skulum fara okkur varlega í þessum efnum, taka eitt skref í einu. Ég vil svo sem ekkert útiloka neitt, en mér finnst aldeilis af og frá að við förum að ljúka þessu máli núna í einhverjum andarteppustíl á þessum síðustu vikum rétt fyrr jólaleyfi, helgustu hátíð kristinna manna og knýja þetta mál áfram í fulkominni óþökk og óánægju íslensku þjóðkirkjunnar. Það fer ekkert vel á því, sérstaklega nú á aðventu. Ég vænti því þess að kirkjumrh. viji ganga hægt um þessar dyr eins og við hér og gæta þess að fullkomin sátt verði um þetta mál en að það verði ekki knúið fram í fullkominni ósætti aðila. Ég trúi ekki öðru en hæstv. kirkjumrh. sé mér hjartanlega sammála um það.