Losun gróðurhúsalofttegunda

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 13:32:37 (2805)

2000-12-06 13:32:37# 126. lþ. 41.94 fundur 175#B losun gróðurhúsalofttegunda# (umræður utan dagskrár), Flm. ÞSveinb (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 126. lþ.

[13:32]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Óhætt er að fullyrða að fólk um heim allan hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum þegar sjötta aðildarríkjaráðstefna rammasamningsins um loftslagsbreytingar fór út um þúfur í Haag, enda mikið í húfi. Í annan tíma höfum við ekki horfst í augu við umhverfisvanda af þeirri stærðargráðu sem loftslagsbreytingar á næstu öld kynnu að verða. Þess vegna fannst ýmsum óhugsandi að þriggja ára þrotlaus vinna frá því í Kyoto gæti farið í vaskinn, en hið ótrúlega gerðist að þegar á reyndi var samningsviljinn ekki nægur og skammtímahagsmunir urðu ofan á.

En um hvað er að tefla, herra forseti? Samkvæmt spám færustu vísindamanna um loftslagsbreytingar getur hitastig á jörðinni hækkað um 1,5--6 gráður á Celsíus á næstu 100 árum. Yfirborð sjávar gæti hækkað um 15--92 sm að meðaltali fyrir árið 2100. Þetta eru meiri loftslagsbreytingar á næstu 100 árum en orðið hafa sl. 10 þúsund ár, herra forseti. Þess vegna þarf strax að grípa til aðgerða sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum.

Í Kyoto náðist samkomulag um að iðnríki stigju fyrsta skrefið og minnkuðu losun um 5,2% að meðaltali á fyrsta bókhaldstímabili samningsins. Nú er það samkomulag í uppnámi. Og það sem verra er, nýjustu tölur sýna að langflest iðnríki hafa aukið losun gróðurhúsalofttegunda á sl. áratug.

Frá 1990 til 1998 jókst losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi um 4,7%, í Ástralíu jókst hún um 14,5%, á Spáni um 21%, í Bandaríkjunum um 11% svo nokkur dæmi sú nefnd. Í Vestur-Evrópu hefur ríkisstjórnum Bretlands, Lúxemborgar og Þýskalands einum tekist að grípa til aðgerða til að draga úr losun.

Herra forseti. Íslendingar eru langt frá því að vera hvítþvegnir englar þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda eins og stundum mætti skilja á málflutningi hæstv. umhvrh. Ísland er í 17. sæti í hópi iðnríkjanna þegar losun koltvísýrings er mæld á hvern íbúa. Við losum 9 tonn af koltvísýringi á hvern mann á ári. Það er að vísu helmingi minna en hver Bandaríkjamaður losar, enda eru þeir heimsmeistarar, en það er rétt ríflega losun hvers manns í Evrópusambandinu.

Í ljósi þessara staðreynda er rétt að spyrja hæstv. umhvrh. hvort hún hafi einhverjar áætlanir í smíðum er miði að því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda hér á landi á næstu árum. Hvaða aðgerðir eru í undirbúningi á vegum ráðuneytisins í þessum efnum, t.d. með tilliti til samgangna, iðnaðar og sjávarútvegs? En frá upphafi hefur það verið leiðarljós Kyoto-bókunarinnar að leggja höfuðáherslu á aðgerðir sem minnka losun heima fyrir. Að auki er þróun endurnýjanlegra orkugjafa að sjálfsögðu lykill að langtímalausn í þessum efnum.

Herra forseti. Ýmsir fulltrúar á ráðstefnunni í Haag tóku svo djúpt í árinni að halda því fram að útfærsla Kyoto-bókunarinnar væri flóknasta samningaverkefni sem ríki jarðar hefðu staðið frammi fyrir og lausnin er fjarri því að vera einföld eða ódýr þegar til skamms tíma er litið. En þegar til lengri tíma er litið er jafnljóst að náist ekki samningar sem fyrst munu jarðarbúar gjalda því dýru verði síðar.

Áhrif hlýnunarinnar á lífsskilyrði á jörðinni má að einhverju leyti sjá fyrir. Fæðuskortur mun aukast á sumum svæðum, vatnsskortur á öðrum, grunngerð samfélaga gæti víða orðið fyrir óbætanlegu tjóni og afleiðingar á útbreiðslu smitsjúkdóma eru einnig mikið áhyggjuefni. Um áhrif á plöntu- og dýralíf, líffræðilega fjölbreytni, er erfiðara að spá, en um grundvallarbreytingar gæti orðið að ræða. En eitt er alveg ljóst, þeir fátækustu verða fyrst fyrir barðinu á loftslagsbreytingunum. Þeir sem minnst hafa mengað verða verst úti. Þeir sem minnsta möguleika hafa til að verjast afleiðingunum finna mest fyrir þeim.

Herra forseti. Mig langar einnig að inna hæstv. umhvrh. eftir því hvernig hún muni undirbúa væntanlegan fund aðildarríkjanna í Bonn á vori komanda. Hverjar telur ráðherrann líkurnar á því að samningar þokist áfram á þeim fundi? Munu íslensk stjórnvöld halda íslenska ákvæðinu til streitu ef samningaviðræður fara aftur í gang?

Að lokum, herra forseti. Er ekki tímabært að hæstv. umhvrh. geri Alþingi grein fyrir því hvað felst í raun og veru í útfærslu íslenska ákvæðisins? Hvernig hyggjast stjórnvöld beita sér fyrir nauðsynlegum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda nái tillaga Íslands einhvern tíma fram að ganga?