Losun gróðurhúsalofttegunda

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 13:43:13 (2807)

2000-12-06 13:43:13# 126. lþ. 41.94 fundur 175#B losun gróðurhúsalofttegunda# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 126. lþ.

[13:43]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hæstv. umhvrh. klifar á því að Íslendingar standi sig vel í þessum efnum vegna þess að við notum svo mikið af endurnýjanlegri orku. Þessar upplýsingar eru réttar en villandi, herra forseti, því að orkusóun á Íslandi er afar mikil. Við eyðum miklu meiri orku á íbúa en aðrar vestrænar þjóðir gera og orkusóun er ekki til umræðu í samfélagi okkar, herra forseti. Losun á Íslandi á gróðurhúsalofttegundum er hærri á íbúa en hún er í Evrópusambandinu. Þess vegna segi ég, herra forseti, að upplýsingarnar sem hæstv. umhvrh. klifar á séu villandi.

Það er alveg rétt hjá hæstv. umhvrh. að við notum endurnýjanlega orku. 67% af þeirri raforku sem við notum á Íslandi er komin frá endurnýjanlegum orkugjöfum og það er að sjálfsögðu til fyrirmyndar og ekki ber að kasta neinni rýrð á það. En það er ekki til fyrirmyndar að halda áfram að framleiða vistvæna orku í stórum stíl sem þó er ekki framleidd, herra forseti, á sjálfbæran hátt þegar litið er til náttúrunnar og landsins sem líka er auðlind, sameiginleg auðlind þjóðarinnar, og selja svo, herra forseti, hina vistvænu orku til málmbræðslu sem mengar meira en nokkur annar iðnaður. Og það að leggjast á sveif með stórþjóðunum, Bandaríkjamönnum og Kanadabúum, er ekki heldur til fyrirmyndar. Það sem væri til fyrirmyndar fyrir íslenska þjóð væri að stjórnvöld færu fremst í umræðunni um sjálfbæra orkustefnu, um notkun vatnsorku, jarðvarmaorku, vindorku og sólarorku og kæmi svo hér á fyrsta sjálfbæra samfélaginu í veröldinni sem mundi ná til heillar þjóðar. Það væri til fyrirmyndar, herra forseti, en ekki sá málflutningur sem íslensk stjórnvöld reka á alþjóðagrundvelli. Og hnattræni ávinningurinn, herra forseti, er svo lítill að íslensk stjórnvöld skammast sín fyrir að nefna töluna sem er núll komma núll, núll, eitthvað prósent þegar horft er á hnattræna ávinninginn af því að reisa álver á Reyðarfirði en ekki einhvers staðar í Afríku.