Losun gróðurhúsalofttegunda

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 13:45:27 (2808)

2000-12-06 13:45:27# 126. lþ. 41.94 fundur 175#B losun gróðurhúsalofttegunda# (umræður utan dagskrár), TIO
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 126. lþ.

[13:45]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Umræðan um Kyoto-bókunina og hvernig sá samningur verður framkvæmdur er í nokkuð lausu lofti eins og oft áður. Það er ekki litið til möguleikanna á að þessi Kyoto-bókun komist í framkvæmd. Það er heldur ekki reynt að spá í hvers vegna Evrópuríkin sjá sér hag í því að ekki var ritað undir samkomulagið. Það var varla þornað blekið af bókunum fundarins þegar Evrópusambandið breytti gersamlega um stefnu í orkumálum. Hvað ákváðu þeir þá? Þeir ákváðu að leggja áherslu á kjarnorkumál vegna þess að þeir geta ekki staðið við Kyoto-samninginn öðruvísi en að efla kjarnorkuframleiðslu sína til raforkuframleiðslu.

Hér er talað um að við Íslendingar séum meiri orkusóðar en Evrópusambandið. Hvernig stendur á því, hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, að Evrópusambandið getur sýnt fram á tölur um að þeir eyði minna af jarðefnaorku en aðrar þjóðir? Það er vegna þess að innan Evrópusambandsins eru þjóðir sem framleiða allt upp í 70% raforku sinni með kjarnorku. Er hv. þm. að hæla Evrópusambandinu fyrir það? Það er mjög erfitt að ráða í hvað hv. þm. á við með því að við séum eftirbátar annarra í þessum efnum.

Hvernig stendur á því, þegar við lítum á heildarhlut Evrópusambandsins í þessu, að Frakkland á ekki að leggja neitt fram í að draga úr gróðurhúsagastegundum og Portúgal má auka þær um 27%? Er þetta eitthvað sem hv. þm. veit ekkert um, hefur ekki kynnt sér? Hvernig stendur á því að þessi ræðuhöld eru gersamlega úr tengslum við raunveruleikann?