Losun gróðurhúsalofttegunda

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 13:56:37 (2813)

2000-12-06 13:56:37# 126. lþ. 41.94 fundur 175#B losun gróðurhúsalofttegunda# (umræður utan dagskrár), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 126. lþ.

[13:56]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það er allt í þoku og myrkri um markmið hæstv. ríkisstjórnar í umhverfismálum. Í samstarfi við aðrar þjóðir skipar hún sér í þá fylkingu sem styst vill ganga til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en lengst gengur hún allra þjóða í að heimta sérréttindi og reyna að skapa sér undankomuleiðir frá sameiginlegum aðgerðum. Hæstv. ríkisstjórn verður þess vegna að svara brennandi spurningum um hvað hún vill gera hér heima.

Verður gengið út frá því, við ákvarðanatöku um stóriðju, útgerð og samgöngumál, að Íslendingar fylgi öðrum þjóðum við að draga úr mengun? Engin stefna virðist til í þessum efnum. Ætlar ríkisstjórnin að gera ráð fyrir því í samningum um stóriðju að geta staðið við skuldbindingar Kyoto-bókunarinnar? Við því er ekkert svar. Engar ráðstafanir eru á döfinni sem draga mundu úr mengun vegna fiskveiða og vinnslu sjávarafla. Við kaupum bara stærri skip og öflugri vélar í flotann. Hefur einhver orðið var við ráðstafanir sem draga úr mengun frá samgöngum? Nei. Það er engin stefna sett fram í neinu.

Til að átta sig á stefnu hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. ráðherra fyrir hennar hönd í þessum málum verða menn að draga lærdóm af reynslunni. Hæstv. umhvrh. byrjaði svo að ætla mátti að hún mundi láta náttúruna njóta vafans ef vafi léki á í slíkum málum. Hún tók þá ákvörðun að uppeldi í svínum á Melasveit ætti að fara í umhverfismat. Hvað hefur gerst eftir það? Hún hefur hafnað öllum þeim málum þar sem vafi hefur leikið á um niðurstöður. Það má t.d. minna á laxeldi í Mjóafirði, í Berufirði, úrskurðinn um Mývatn. Menn hljóta að spyrja: Eru svínin í Melasveitinni eina undantekningin sem sannar þá reglu að aðrir hagsmunir skuli ævinlega ganga framar hagsmunum náttúrunnar?