Losun gróðurhúsalofttegunda

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 13:58:54 (2814)

2000-12-06 13:58:54# 126. lþ. 41.94 fundur 175#B losun gróðurhúsalofttegunda# (umræður utan dagskrár), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 126. lþ.

[13:58]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Hv. þm. verða að viðurkenna aðalatriði þessa máls. Málið gengur út á að minnka losun gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpi jarðar. Við Íslendingar viljum taka þátt í því. Hjá okkur er losun álíka mikil milli þriggja þátta, þ.e. samgangna á landi, fiskveiða og iðnaðar. Þegar línan var dregin á árinu 1990 höfðu Íslendingar breytt um orkugjafa, t.d. breytt úr olíu í græna orku í upphitun húsa. Við höfðum þegar gert þær ráðstafanir sem nú er farið fram á að aðrar þjóðir grípi til. Það sem er þó mikilvægast og snýr að þeim málaflokki sem ég sem iðnrh. ber ábyrgð á er að á Íslandi getum við framleitt ál, léttmálm í álverum knúnum hreinni orku, grænni orku. Ef við hugsum málið hnattrænt eins og okkur ber skylda til, hv. þm. Samfylkingarinnar hafa reynt að skapa sér þá ímynd að hugsa mjög hnattrænt, þá er losun gróðurhúsalofttegunda allt að 7--8 sinnum meiri þar sem notuð eru kol eða olía sem orkugjafi.

Síðast en ekki síst vil ég nefna vetnið. Það getum unnið hér heima, hv. þm. Jóhann Ársælsson. Þar eru mjög spennandi hlutir að gerast. Við Íslendingar eigum gífurlega möguleika á því sviði og við í iðnrn. höfum orðið vör við athygli annarra Evrópuþjóða á því sem við erum að gera. Framtíðarmarkmið okkar hlýtur að vera að skipta úr olíu í vetni í samgöngum og fiskveiðum.

Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson. Ég er sveitamaður og skammast mín ekki fyrir það. Við erum best á þessu sviði. Okkar málstaður er góður enda er allur vindur úr hv. þm. stjórnarandstöðunnar.