Losun gróðurhúsalofttegunda

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 14:03:05 (2816)

2000-12-06 14:03:05# 126. lþ. 41.94 fundur 175#B losun gróðurhúsalofttegunda# (umræður utan dagskrár), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 126. lþ.

[14:03]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Það er ágætt að fara aðeins yfir það hvað Evrópusambandið er að gera. Hér var gefið í skyn að Evrópusambandið stæði sig vel. Það er ekki svo. Þeir stefna að því árið 2020 að fara í 12% endurnýjanlega orku. Í dag erum við í 70% endurnýjanlegri orku. Evrópusambandið ætlar í 12% árið 2020. (ÞSveinb: Við erum að tala um að ...) Hér var dregið líka fram að við værum með eitthvað meiri losun á íbúa en þeir. Við skulum aðeins athuga af hverju það er. Við skulum líta fyrst á fiskiskipaflotann sem er stærri hlutfallslega hér á íbúa en í nokkru öðru landi. Ef við værum með álíka stóran flota og Evrópusambandið á íbúa, þá færi losun hér úr 9 tonnum á íbúa á ári í 6 tonn á íbúa á ári. Við yrðum 30% lægri en Evrópusambandið að meðaltali. Þar eru menn að nota kol, olíu og kjarnorku og ég hlýt að spyrja Samfylkinguna og vinstri græna: Hvað viljið þið? Þið viljið nota vistvæna orku. Hvað er vistvæn orka? Það er jarðvarmi og vatnsorka. Þið viljið ekki nota kol og ekki nota olíu og þið viljið ekki nota kjarnorku. (Gripið fram í: Og ekki stóriðju.) Þá spyr ég: Af hverju styðjið þig ekki sérákvæði Íslendinga? Því að við erum að biðja um nákvæmlega þessa orkugjafa og við erum að bjóða upp á þá.

Ég vil líka að lokum, virðulegi forseti, svara fyrir það sem Jóhann Ársælsson dró inn í umræðuna að það ætti aldrei að láta náttúruna njóta vafans. Þetta eru mikil öfugmæli og hér voru dregin inn nokkur mál. Það var dregið inn laxeldi í Mjóafirði. Þar var farið eftir faglegri ráðgjöf veiðimálastjóra sem gefur út rekstrarleyfi og Hollustuverndar ríkisins sem gefur út starfsleyfi. Berufjörðurinn --- það er ekki endanlega búið að úrskurða um það. Þar er kæruferli þannig að ef hv. þm. veit meira en ég um það mál, þá kemur það á óvart.

Hvað með Mývatn? Mývatn fór í tvöfalt umhverfismat. Það nýtur vafans. Ég spyr: Hvað hefur Samfylkingin og vinstri grænir í huga varðandi þau mál og íbúana þar? Tvöfalt umhverfismat á Mývatni. Náttúran naut vafans.