Kísilgúrvinnsla úr Mývatni

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 14:45:49 (2832)

2000-12-06 14:45:49# 126. lþ. 42.2 fundur 278. mál: #A kísilgúrvinnsla úr Mývatni# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., HBl
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 126. lþ.

[14:45]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það hefur löngum verið um það rætt og því haldið fram að samkomulag hafi verið gert um að leggja niður framleiðslu kísilgúrs við Mývatn. Hið rétta í málinu er að náð var samkomulagi um það að ríkisstjórnin legði fram á Alþingi frv. þar að lútandi. Það frv. náði ekki fram að ganga einfaldlega vegna þess að Alþingi féllst ekki á það samkomulag sem rætt hafði verið um milli umhvrh. og náttúruverndarsamtaka á þeim tíma. Það var því þannig að Alþingi hafnaði því samkomulagi sem fitjað hafði verið upp á. Þess vegna er alveg ástæðulaust og ber allra síst í sölum Alþingis að halda því fram að eitthvað hafi verið gert sem á Alþingi hefur verið hafnað.