Kísilgúrvinnsla úr Mývatni

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 14:48:50 (2834)

2000-12-06 14:48:50# 126. lþ. 42.2 fundur 278. mál: #A kísilgúrvinnsla úr Mývatni# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 126. lþ.

[14:48]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Hér var spurt hvort ráðherra væri kunnugt um viðbrögð frá Ramsar-skrifstofunni. Ráðherra er ekki kunnugt um viðbrögð frá Ramsar-skrifstofunni en málið hefur farið til þeirra með bréfi 3. ágúst og annað bréf fer bráðlega varðandi úrskurð ráðherra.

Það er alrangt að náttúran hafi ekki verið látin njóta vafans í úrskurði umhvrh. og Skipulagsstofnunar varðandi Kísiliðjuna. Ráðherrann staðfesti úrskurð Skipulagsstofnunar. Skipulagsstofnun úrskurðaði það heimilt að fara í Syðriflóa og ráðherra staðfesti þann úrskurð reyndar með viðbótarskilyrði, tólfta skilyrðinu. Hér hefur ákveðið stjórnmálafl, vinstri grænir, farið mjög harkalega fram í umræðum um þetta mál og talið að við höfum verið að ganga á hlut náttúrunnar. Það er af og frá. Hér þarf að skoða umhverfishagsmuni og byggðahagsmuni. Búið er að skoða umhverfishagsmuni og það er ásættanlegt að fara út í Syðriflóa frá þeim hagsmunum. Það er mjög eftirtektarvert að frambjóðandi vinstri grænna í Reykn., Kristín Halldórsdóttir, sem starfaði hér með okkur um tíma og er núna að mér skilst starfsmaður vinstri grænna eða vinnur með þeim, segir í Morgunblaðsgrein að starfsmenn Kísiliðjunnar hafi brugðist vel við úrskurði ráðherra, og það er rétt, með því að halda upp á það og síðan kemur í þessari grein hvílík skammsýni, hvað er þetta fólk að hugsa? Ég hlýt að spyrja á móti: Hvílík skammsýni. Hvað eru vinstri grænir að hugsa í þessu máli? Búið er að fara í gegnum tvöfalt umhverfismat á Kísiliðjunni við Mývatn og samt koma upphrópanir af þessu tagi. Hvað er fólkið sem vinnur í Kísiliðjunni að hugsa? Það er auðvitað að hugsa um hagsmuni sína líka. Það er að hugsa um framtíðina. Og þegar hægt er að stuðla að atvinnu og vernda náttúruna og ganga ekki á hlut hennar um leið, þá á að sjálfsögðu að gera það.