Varúðarregla, 15. regla Ríó-yfirlýsingarinnar

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 14:51:14 (2835)

2000-12-06 14:51:14# 126. lþ. 42.3 fundur 280. mál: #A varúðarregla, 15. regla Ríó-yfirlýsingarinnar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 126. lþ.

[14:51]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Áfram beinum við fyrirspurn til hæstv. umhvrh. Ásamt mér er á þskj. 308 hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og vera hans í salnum sýnir það að sjálfsögðu, herra forseti, að þann hv. þm. hefur ekki brostið kjark til að koma hér og ræða málefni Mývatns eins og hæstv. viðsk.- og iðnrh. lét liggja að í ræðu sinni áðan.

Fyrirspurnin lýtur að 15. reglu Ríó-yfirlýsingarinnar og er svohljóðandi, í fjórum liðum, herra forseti:

1. Telur ráðherra íslensk stjórnvöld vera lagalega bundin af 15. reglu Ríó-yfirlýsingarinnar (varúðarreglunni)?

2. Ef svo er, hver er útfærsla reglunnar og stendur til að lögfesta þá útfærslu?

3. Hvernig rökstyður ráðherra að 15. regla Ríó-yfirlýsingarinnar hafi verið notuð í nýgengnum úrskurði um kísilgúrvinnslu í Mývatni?

Eins og kunnugt er tekur bæði hæstv. ráðherra fram í úrskurði sínum og sömuleiðis Skipulagsstofnun að varúðarreglunnar hafi verið gætt í úrskurðinum.

4. Hver er grundvallarmunurinn á framkvæmd varúðarreglna annars vegar og framkvæmd reglna um fyrirbyggjandi aðgerðir hins vegar, með tilliti til áðurnefnds úrskurðar?

Herra forseti. Það skal segjast eins og er að kveikjan að þessum spurningum er fengin úr blaðagrein sem birtist í Morgunblaðinu sunnudaginn 12. nóvember sl. Greinina skrifar Aðalheiður Jóhannsdóttir sem er fyrrum starfsmaður umhvrn. en hún er lögfræðingur og stundar nú doktorsnám í umhverfisrétti við Uppsalaháskóla.

Aðalheiður Jóhannsdóttir getur í greininni um varúðarregluna og telur að hér leiki ákveðinn vafi á framkvæmd reglna af þessu tagi. Aðalheiður styður það gildum rökum að mínu mati að hér sé mögulega verið að miða við fyrirbyggjandi reglur, þ.e. reglur um fyrirbyggjandi aðgerðir en ekki varúðarreglur og þykir mér öll þessi grein og allur sá málflutningur sem þar er að finna gefa fullt tilefni til að fá nánari útskýringar frá hæstv. umhvrh. á úrskurði sínum um kísilgúrnám í Mývatni.