Varúðarregla, 15. regla Ríó-yfirlýsingarinnar

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 14:58:45 (2837)

2000-12-06 14:58:45# 126. lþ. 42.3 fundur 280. mál: #A varúðarregla, 15. regla Ríó-yfirlýsingarinnar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 126. lþ.

[14:58]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það væri mjög æskilegt ef hæstv. ráðherrar temdu sér á venju að svara spurningum sem fyrir þá eru lagðar í fyrirspurnatímum og að þeir sem á annað borð geta það reyndu að gera það málefnalega. Það er kannski til fullmikils mælst þegar í hlut eiga sumir hæstv. ráðherrar Framsfl. eins og dæmin sanna. Blaðagreinum og persónulegum skoðunum sem lýst er í þeim ættu hæstv. ráðherrar sömuleiðis að svara á þeim vettvangi í staðinn fyrir að nota tækifærið hér í skjóli þinghelgi og ráðast að nafngreindum einstaklingum sem ekki eru til staðar til að svara fyrir sig. Talandi um kjarkleysi, herra forseti, þá er það a.m.k. ekki stórmannlegt og hefur aldrei verið talið.

Spurningin um hvort hefja ætti kísilgúrnám á nýjum svæðum í Mývatni er afar umdeilt mál og í raun og veru prófmál að mörgu leyti. Við höfum lagt fram spurningar sem tengjast lagalegum og þjóðréttarlegum álitamálum í tengslum við þetta mál og þær spurningar verðskulda málefnaleg svör.

Herra forseti. Síðan hygg ég að hæstv. umhvrh. sé nokkurn veginn einn um það í landinu að túlka niðurstöður sínar í málinu þannig að náttúran hafi fengið að njóta vafans.