Manneldis- og neyslustefna

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 15:11:55 (2844)

2000-12-06 15:11:55# 126. lþ. 42.4 fundur 279. mál: #A manneldis- og neyslustefna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 126. lþ.

[15:11]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir beinir til mín tveim spurningum sem ég mun svara hér. Fyrri spurningin er: Hvað líður endurskoðun á manneldis- og neyslustefnu sem samþykkt var á Alþingi 19. maí 1989?

Þál. um manneldi- og neyslustefnu var samþykkt á Alþingi árið 1989, en hún nær til ársins 2000. Þau meginmarkmið sem koma fram í stefnunni eru í fullu gildi þó ýmislegt megi bæta. Manneldismarkmið fyrir Íslendinga voru endurskoðuð og endurútgefin af manneldisráði með lítils háttar breytingum frá fyrri útgáfu árið 1994, en stefnan byggir á þeim markmiðum. Í þál. frá 1989 segir að manneldisstefnan skuli endurskoðuð með hliðsjón af nýrri þekkingu á hverjum tíma.

Í september sl. var samþykkt af Evrópudeild Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar að gera áætlun um mat og næringu þar sem aðildarlöndin eru hvött til að móta og endurskoða stefnu sína í þeim málaflokki. Manneldisráð hefur lagt fram óskir um fjárveitingar til að standa straum af landskönnun á mataræði Íslendinga sem leggja á grunn að endurskoðaðri manneldis- og neyslustefnu. Árið 2000, á þessu ári, fengu þau aukafjárveitingu, rúmar 3 millj., til að hefja þetta verk og á fjárlögum næsta árs er áætluð svipuð upphæð til viðbótar til að halda þeirri könnun áfram. En þessi könnun er mjög dýr, hún kostar um 20 millj. kr., og við erum ekki búin að finna svo mikið fjármagn til að fara í þá könnun. En það er hægt að hefja hana. Manneldisráð hefur um 15 millj. á fjárlögum hvers árs, hefur það á næsta ári.

Auk þess vil ég geta þess að við höfum sett inn í fjárlögin líka 1,8 millj. kr. fyrir gagnagrunn efnainnihalds í matvælum og við munum setja inn næstu þrjú árin rúmar 5 millj. til þeirrar könnunar. Á mörgum fjárlagaliðum má einmitt finna hluti sem styrkja rannsóknir á sviði næringar og vil ég þar sérstaklega geta nýjungar sem kemur einnig fram á fjárlögum um rannsóknir á kúamjólk.

Síðan spyr hv. þm.: Hvernig hefur gengið að ná markmiðum manneldis- og neyslustefnunnar?

Þetta er mjög flókin spurning og kannski ekki hægt að svara á tæmandi hátt. Auðvitað þarf könnun eins og ég nefndi áðan til að geta svarað henni fullkomlega, en vísbendingar um þróunina má finna í fæðuframboðstölum sem byggja á framleiðslu og innflutningi matvæla, að frádregnum útflutningi og öðrum notum. Manneldisráð tekur þessar tölur saman og birtir ár hvert fyrir alla helstu flokka matvæla, t.d. mjólk, kjöt, sykur, hveiti o.s.frv.

[15:15]

Fæðuframboðstölur benda til þess að neysla grænmetis hafi aukist um þriðjung á tíu árum og heildarneysla á fitu hafi minnkað lítillega. Töluvert hefur dregið úr neyslu mettaðrar fitu miðað við fæðuframboðstölur eða um 15%. Niðurstöður Hjartaverndar sýna að kólesteról í blóði Íslendinga hefur lækkað um 12% hjá körlum og 14% hjá konum undanfarin ár og er það merki um minni neyslu á mettaðri fitu. Þetta á sinn þátt í að kransæðasjúkdómar eru á undanhaldi á Íslandi.

Varðandi sykurinn þá stöndum við okkur ekki nægilega vel. Mér sýnist að þar séu svipaðar tölur og árið 1994, að hver Íslendingur borði um 1 kg af sykri á viku sem er auðvitað mjög mikið magn.

En það er ekki nóg að gera kannanir heldur þarf líka að fræða og það er einmitt stefna manneldisráðs, að auka fræðsluna.