Manneldis- og neyslustefna

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 15:20:39 (2848)

2000-12-06 15:20:39# 126. lþ. 42.4 fundur 279. mál: #A manneldis- og neyslustefna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 126. lþ.

[15:20]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Manneldismál eru ekki nein átaksverkefni. Þetta eru verkefni sem þurfa stöðugt að vera í gangi. Því höfum við lagt fjármuni til ýmissa rannsókna, ýmissa rannsóknaþátta og ýmiss konar fræðslu. Ég vil benda á það sérstaklega, af því við höfum kannski mestar áhyggjur af sykurneyslunni sem ekki hefur minnkað, að við höfum t.d. bætt aðgengi að mjólk, sem er mjög ódýr, í skólum og á vinnustöðum. Við höfum aukið aðgengi að tæru vatni víðast á vinnustöðum og alls staðar í skólum. (Gripið fram í.) Þar að auki höfum við unnið með ýmsum aðilum sem starfa að forvarnamálum. Ég nefni þar beinvernd sem dæmi. Þetta er margþætt mál.

Það er hárrétt að vissulega væri gaman að taka eitt ár í svona könnun en þá þyrftum við að leggja eitthvað annað til hliðar á meðan. En við getum hafið þessa könnun og við ætlum að fara í þessa könnun. Við erum vön að sjá fyrir endann á fjármögnun slíkra hluta og gerum það í þessu tilviki sem öðrum. En ef við skoðum fjárlagafrv. í heild sinni sést að á mörgum liðum er einmitt verið að auka fjármagn til þessara mála.