Áhrif hrefnustofnsins á viðgang þorskstofnsins

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 15:34:29 (2855)

2000-12-06 15:34:29# 126. lþ. 42.6 fundur 282. mál: #A áhrif hrefnustofnsins á viðgang þorskstofnsins# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi GAK
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 126. lþ.

[15:34]

Fyrirspyrjandi (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Hrefnan er mjög mikilvægur hluti vistkerfisins á íslenska landgrunninu og samkvæmt bestu áætlun nemur heildarneysla tegundarinnar á hafsvæðinu umhverfis Ísland 2 millj. tonna og þar af 1 millj. tonna af fiski. Fjölstofnaathuganir benda til þess að vöxtur hrefnu, langreyðar og hnúfubaksstofns við landið úr 70% upphafsstærðar, sömu stofnstærðar og var áður en veiðar hófust, í 100% leiði til þess að afrakstur þorskstofnsins minnki um 20%. Samkvæmt þessum athugunum vegur hrefnan langmest í þessu tilliti. Því má ætla að breytingar á stærð hrefnustofnsins úr 90%, sem hún er talin vera nú, í 60--70% af upphaflegri stærð séu líklegar til að hafa veruleg vistfræðileg áhrif, þar með talið á aukna afrakstursgetu þorskstofnsins.

Heildarneysla þeirra tólf hvalategunda sem algengastar eru hér við land nemur um 6 millj. tonna og af því eru rúmlega 2 millj. tonna fiskmeti. Hrefna virðist vera atkvæðamesti afræningi meðal hvala á Íslandsmiðum bæði hvað varðar heildarmagn og fiskát. Á mynd sem fylgdi með svari til hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur vegna fyrirspurnar um hvalveiðar kemur fram að þegar á næsta ári er talið að þrír hvalastofnar hér við land, hnúfubakur, hrefna og langreyður, hafi þau áhrif að þorskveiðin þegar á næsta ári geti orðið 30--50 þús. tonnum minni en ella væri og eftir 20 ár muni um 100 þús. tonnum í þorskafla. Hér erum við að tala um veruleg áhrif á afrakstursgetu okkar af þorskstofninum.

Nú virðist hnúfubakurinn samkvæmt útreikningum NAMMCO einnig kominn í upprunalega stærð eða jafnvel stærri. Því er spurt:

(Forseti (ÁSJ) : Forseti vill beina þeim tilmælum til þingmanna og hæstv. ráðherra að gefa ræðumanni hljóð.)

1. Telur hæstv. sjútvrh. það samrýmast hagsmunum íslensku þjóðarinnar að meina hrefnuveiðimönnum að hefja veiðar þegar í stað og koma með því í veg fyrir þann ávinning sem hrefnuveiðar gætu fært þjóðinni?

2. Telur ráðherra að veiðar á hrefnu mundu stuðla að betra jafnvægi í hafinu umhverfis landið og auka árlega nýtingu þjóðarinnar á þorskstofninum?

3. Ef veiðar hefjast ekki á sjávarspendýrum þarf þá að hækka viðmiðun á náttúrlegum dánarstuðli þorsks sem nú er talinn 18% og þá hversu mikið?