Áhrif hrefnustofnsins á viðgang þorskstofnsins

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 15:37:21 (2856)

2000-12-06 15:37:21# 126. lþ. 42.6 fundur 282. mál: #A áhrif hrefnustofnsins á viðgang þorskstofnsins# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 126. lþ.

[15:37]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Spurning hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar er í þremur liðum. Í fyrsta lagi spyr hann hvort ráðherra telji það samrýmast hagsmunum íslensku þjóðarinnar að meina hrefnuveiðimönnum að hefja veiðar þegar í stað og koma með því í veg fyrir þann ávinning sem hrefnuveiðar gætu fært þjóðinni.

Á vorþingi 1999 var samþykkt þáltill. um að hefja veiðar á hvölum við Ísland að nýju. Jafnframt var samþykkt að áður en það yrði gert, yrði afstaða okkar kynnt fyrir helstu viðskiptaþjóðum okkar. Það var niðurstaða Alþingis á þeim tíma að skynsamlegt væri út frá hagsmunum þjóðarinnar að kynna þessa afstöðu okkar fyrir viðskiptaaðilum okkar áður en veiðarnar hæfust frekar en hefja veiðarnar strax. Þar sem ég greiddi þessari þáltill. atkvæði mitt auk þess að hafa verið flutningsmaður upphaflegu tillögunnar ásamt hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni og fleirum hlýt ég að vera enn þá sammála þessari niðurstöðu, að ekki sé rétt að hefja hvalveiðar fyrr en þær hafa verið kynntar fyrir okkar viðskiptaþjóðum.

Varðandi svar við öðrum lið fyrirspurnarinnar þá innifelst það í svari við fyrsta lið að ég tel að betra jafnvægi væri í hafinu umhverfis landið ef við mundum hefja veiðar á hrefnum og ekki einungis hrefnum heldur á þeim hvölum sem samkvæmt niðurstöðum vísindamanna þola sjálfbærar veiðar.

Ég óskaði eftir umsögn Hafrannsóknastofnunar um þriðja lið spurningarinnar. Í því svari kemur fram m.a. --- en út frá því er gengið að verið sé að tala um hvali í fyrirspurninni --- að heildarneysla þeirra tólf tegunda sem halda reglulega til hér við land nemi um 6 millj. tonna af sjávarfangi árlega, þar á meðal um 2 millj. tonna af fiskmeti. Samkvæmt þessari athugun étur hrefna langmest allra hvalategunda af fiski eða um 1 millj. tonna á ári.

Enn fremur benda fyrstu athuganir á fjölstofnaáhrifum þriggja hvalategunda, hrefnu, langreyðar og hnúfubaks, til þess að fjölgun þeirra geti haft veruleg áhrif á afrakstursgetu þorsks og loðnu til langs tíma litið. Þannig gæti langtímaafrakstur þorskstofns minnkað um allt að 75 þús. tonn eða yfir 20% og áhrifin yrðu svipuð hvað varðar loðnu. Þessi áhrif eru þó mikilli óvissu háð og eru stærstu óvissuþættirnir þessir:

Óvissa um þróun hvalastofnana, þ.e. vaxtarmöguleika þeirra innan vistkerfisins og takmörkuð gögn um fæðu hrefnu hér við land. Einnig er mat á núverandi stofnstærð hvala augljóslega mikilvægt í þessu samhengi, en talsverð óvissa er bundin nýjasta matinu á stofnstærð hrefnu hér við land, en það fór fram sumarið 1995.

Enn fremur kemur fram að vegna ofangreindra óvissuþátta er ekki unnt að segja fyrir með vissu um hvort endurskoða þyrfti viðmiðanir á náttúrlegum dánarstuðli þorsks ef hvalveiðar hefjast ekki að nýju. Ef áhrifin yrðu jafnmikil og vísað er til hér að ofan mundi það fela í sér hækkun á náttúrlegri dánartíðni þorsks, en óvissuþættirnir eru það stórir að ekki er unnt að meta hve mikið slík viðmið mundu hækka.