Áhrif hrefnustofnsins á viðgang þorskstofnsins

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 15:41:08 (2857)

2000-12-06 15:41:08# 126. lþ. 42.6 fundur 282. mál: #A áhrif hrefnustofnsins á viðgang þorskstofnsins# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 126. lþ.

[15:41]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Auðvitað græðir þjóðin ekkert á þessu hrefnuveiðibanni. Það sannar reynsla frænda okkar Norðmanna sem hófu hrefnuveiðar að nýju fyrir sjö eða átta árum og hafa aukið þær jafnt og þétt síðan og stefna að því að veiða hátt í 1.000 hrefnur á næsta ári, ef ég veit rétt. Norðmönnum var hótað öllu illu þegar þessar veiðar hófust en ekkert af þeim hótunum hefur gengið eftir. Sama segja frændur okkar Færeyingar sem veiða verulegt magn af grindhval á hverju ári.

Ég er þeirrar skoðunar, hæstv. forseti, að núna þegar styttist í að við hefjum hvalveiðar að nýju eigum við að hefja veiðar á öllum þeim hvalategundum sem þola veiðar samkvæmt áliti Hafrannsóknastofnunar. Ég flutti tillögu þar að lútandi hér á þinginu fyrir tveimur árum tæpum ásamt fleiri hv. þm., þar á meðal hæstv. núverandi sjútvrh. Þessi tillaga var samþykkt með mjög afgerandi meiri hluta, 37 atkvæðum gegn átta, ef ég man rétt. Alþingi ákvað að heimila þessar veiðar að nýju og fól ríkisstjórn framkvæmd málsins og kynningu eins og hæstv. ráðherra gat um. Ég skora á hæstv. ráðherra að hraða þeirri kynningu þannig að við hefjum þessar veiðar sem allra fyrst.