Skattlagning fríðinda

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 16:00:05 (2867)

2000-12-06 16:00:05# 126. lþ. 42.8 fundur 305. mál: #A skattlagning fríðinda# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 126. lþ.

[16:00]

Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Í vaxandi samkeppni hefur þess gætt, ekki síst síðustu missiri, að samkeppni fyrirtækja stendur einnig um vinnuaflið. Þá hefur komið fram að fyrirtæki þykjast ekki öll eiga jafnhægt um vik að skapa það umhverfi og þau kjör starfsmanna sem þeim þykja best. Í því ljósi hef ég borið fram á þskj. 348 fyrirspurn til fjmrh. Þar segir, með leyfi forseta:

,,1. Við hvaða reglur styðjast stjórnvöld um skattskyldu, framtal, álagningu og innheimtu skatta vegna fríðinda sem fyrirtæki veita starfsmönnum sínum með því að afhenda þeim á undirverði eða án greiðslu þá þjónustu sem þau selja öðrum gegn gjaldi?

2. Liggur fyrir í hagtölum um tekjur launamanna hve háum fjárhæðum þær tekjur starfsmanna sem þannig eru greiddar nema og hve hátt hlutfall þær eru af heildartekjum þeirra?

3. Liggur fyrir í greiningu tekjuskattsstofns hve háum fjárhæðum tekjuskattur af þessum tekjum nemur?``