Einkarekið sjúkrahús

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 10:32:46 (2872)

2000-12-07 10:32:46# 126. lþ. 43.91 fundur 176#B einkarekið sjúkrahús# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[10:32]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Fyrir nokkru spurði ég hæstv. heilbrrh. út í það í þinginu hvort fótur væri fyrir þeim orðrómi að hér á landi stæði til að setja á stofn einkarekið sjúkrahús. Þá hafði um nokkurt skeið verið rætt um áhuga tiltekinna hópa fagfólks á því að koma á fót slíkum rekstri. Ástæða þess að ég spurði hæstv. heilbrrh. út í þetta var sú að ég taldi svo viðamikla stefnubreytingu á íslensku heilbrigðiskerfi þurfa að koma til kasta þingsins.

Hæstv. heilbrrh. svaraði því neitandi, hún sagði að þetta stæði ekki til. Síðustu daga hafa komið fram fréttir þess efnis að unnið sé að undirbúningi þess að koma á fót sjúkrahúsi sem yrði rekið af einkaaðilum. Bent er á að bið eftir aðgerðum á sjúkrahúsum hafi lengst og læknar eigi í sífellt meiri vandræðum með að leysa vandamál sjúklinga sinna með nauðsynlegum aðgerðum og rannsóknum innan ramma hins opinbera sjúkrahúskerfis. Læknar hafa m.a. í erindum til hv. heilbr.- og trn. Alþingis lýst því yfir að þetta verði gert, hvað sem hver segir.

Herra forseti. Ég tek þetta mál upp til þess að spyrjast fyrir um hvort fyrir þinginu liggi mál sem fela í sér slíka grundvallarbreytingu á íslenskri heilbrigðisþjónustu. Ég vil vekja á því athygli að í dag stendur til að ræða heilbrigðisáætlun. Eftir því sem ég fæ best fæ séð er ekki fjallað um þessi mál í henni, að þetta standi til. Þess vegna vekja þær fréttir óneitanlega athygli manns að unnið sé af fullri alvöru að undirbúningi þess að koma á fót slíku sjúkrahúsi.

Úr því að hæstv. heilbrrh. er hér þá vil ég spyrja hana hvort hún telji þetta raunhæfar hugmyndir og hvort unnt sé að gera slíka stefnubreytingu án þess að sú ákvörðun komi til kasta hv. Alþingis.

Herra forseti. Ég tel mikilvægt að fá þessi svör skýr og klár frá hæstv. heilbrrh. Eftir því sem ég best veit liggja þessar stefnubreytingar ekki fyrir þinginu til afgreiðslu.