Einkarekið sjúkrahús

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 10:38:24 (2875)

2000-12-07 10:38:24# 126. lþ. 43.91 fundur 176#B einkarekið sjúkrahús# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[10:38]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég fagna yfirlýsingu hæstv. heilbrrh. Hún talaði mjög skýrt. Ráðherrann heimilar ekki byggingu einkavædds sjúkrahúss. Þetta er svarið sem við vildum heyra eftir fréttir undanfarinna daga.

Það hefur komið fram, herra forseti, að í haust ræddi Læknafélag Íslands einkavæðingu á fundi sínum. Þá vakti það mikil viðbrögð. Það hefur komið fram í fréttum að formaður Læknafélags Reykjavíkur gerir einkavæðingu að umtalsefni í nýjasta tölublaði Læknablaðsins. Þar segir hann m.a. að miklar sparnaðaraðgerðir í heilbrigðisþjónustunni leiði að lokum til samdráttar og fólk geri þá vaxandi kröfu til að leita nýrra valkosta. Stundum veltum við í þessum sal því fyrir okkur hvort það sé ekki einmitt markmiðið af hálfu Sjálfstfl., íhaldsins við stjórnvölinn, að hrekja fólk til að leita þeirra leiða sem þeir vilja sjá.

Nú ber svo við að bæði í gær og í dag komu fram aðilar sem lýstu því yfir að nú yrði bara slegið saman undir einn hatt þeim læknastöðvum sem þegar er að finna úti í bæ og búið til eitt hús, ein starfsemi. Lesist: einkasjúkrahús. Ef þetta mundi gerast þá væri það grundvallarbreyting á samfélagsþjónustu okkar, grundvallarbreyting á þeim stoðum sem skapa samfélagsmynd okkar, að allir eigi jöfn tækifæri til heilbrigðisþjónustu.

Herra forseti. Ég tek undir orð hæstv. ráðherra um að þar sem þetta hefur verið innleitt hefur það leitt til gífurlegrar mismununar, hærri launa í einkarekstrinum og minni þjónustu í ríkisrekstrinum. Það verður að vera tryggt, herra forseti, að ekki verði unnt að stofna einkasjúkrahús nema sú umræða verði leidd inn á Alþingi. En það höfum við óttast að gæti gerst.