Einkarekið sjúkrahús

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 10:40:31 (2876)

2000-12-07 10:40:31# 126. lþ. 43.91 fundur 176#B einkarekið sjúkrahús# (aths. um störf þingsins), ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[10:40]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég veit eiginlega ekki hvar hv. þm. hafa haldið sig undanfarin ár. Það er eins og einkarekstur í heilbrigðisþjónustu sé eitthvert nýmæli. Það hefur komið fram að Tryggingastofnun ríkisins greiddi á síðasta ári 3,3 milljarða til sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna sem reka sjálfstæða starfsemi innan heilbrigðisþjónustunnar. Það er einnig löng hefð fyrir því að öldrunarstofnanir séu reknar í einkarekstri, annaðhvort af félagasamtökum eða einkaaðilum. Við þurfum ekki að leita lengra en til Hveragerðis, til heilsustofnunarinnar í Hveragerði, þar er einkarekstur.

Öll þessi heilbrigðisþjónusta er rekin og borguð af ríkinu. Það er algengur misskilningur hér á landi að samansemmerki sé á milli einkareksturs og takmarkaðs aðgengis eða minna jafnræðis í heilbrigðisþjónustu. Það er samstaða um það hér á landi að heilbrigðisþjónusta sé samfélagsleg þjónusta og greidd af hinu opinbera að mestu leyti. Því verður ekki breytt. Ég tel að um það mundi ekki nást samstaða og engar hugleiðingar í þá veru að breyta því.

Það hafa verið gerðar athugasemdir við að læknar, sem hafa fengið greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins fyrir störf sín á stofum úti í bæ, hafi sett fram hugmyndir um að slá þessum stofum sínum saman. Ég mundi einmitt telja að fólk ætti að fagna því. Það væri aukið hagræði í því ef slíkar stofur yrðu færðar saman, hvort sem það er undir merki sjúkrahúss eða undir einhverju öðru merki. Því segi ég að ég veit bara ekki hvar fólk hefur haldið sig ef það telur að einkarekstur í heilbrigðisþjónustu sé eitthvað nýtt hér á landi.