Einkarekið sjúkrahús

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 10:42:42 (2877)

2000-12-07 10:42:42# 126. lþ. 43.91 fundur 176#B einkarekið sjúkrahús# (aths. um störf þingsins), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[10:42]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur fyrir að hefja þessa umræðu um störf þingsins. Það er sannarlega ástæða til að þingið ræði málið og hér fáist upplýsingar um hvort þær fregnir sem nú eru birtar í fjölmiðlum eru réttar, einfaldlega vegna þess að þær stangast á við það sem hér hefur áður verið ákveðið og viðurkennt.

Þó að löng hefð sé fyrir því að einkaaðilar sinni heilbrigðisþjónustu og, eins og hv. þm. Ásta Möller orðaði það svo snyrtilega, að allur einkarekstur sé greiddur af ríkinu, sem er dálítið sérkennileg þversögn, þá er ekki samkomulag um það í íslensku samfélagi að hér verði til heilbrigðisþjónusta sem mismunar umfram það sem þegar er. Um það er ekki samkomulag og um það verður ekki samkomulag. Þegar fólk les síðan í blöðum fréttir þess efnis að hér standi til að breyta því fyrirkomulagi sem það býr við þá spyr það að sjálfsögðu fyrst: Stendur hér til að mismuna? Hverju á að breyta?

Menn sjá það fyrir sér að hér verði aukin, fremur en hitt, svokölluð einkaþjónusta eða einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Reynslan af því nú þegar sem og frá öðrum löndum gefur ekki tilefni til að menn taki þeirri þróun með húrrahrópum. Þess vegna á það fullkomlega við, ef á að fara út í slíkar breytingar, að gerð sé krafa um að það sé rætt á hinu háa Alþingi.

Ég vil að lokum fagna viðbrögðum hæstv. heilbrrh. í þessari umræðu. Ég velti því samt fyrir mér hvort nægilegt sé að hún segi að hún muni ekki heimila byggingu einkasjúkrahúss vegna þess að það er reksturinn sem skiptir máli.