Eftirlit með útlendingum

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 11:00:13 (2885)

2000-12-07 11:00:13# 126. lþ. 43.2 fundur 284. mál: #A eftirlit með útlendingum# (beiðni um hæli) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[11:00]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég áttaði mig ekki alveg á fyrri spurningu hv. þm., þ.e. í hvaða tilfelli Ísland getur orðið þriðja landið. Það eru ákveðin skilyrði í Dyflinnarsamningnum um hvaða land fjallar um réttarstöðu viðkomandi útlendings eða flóttamanns. Ég held að það sé nokkuð skýrt sem þar kemur fram ef hv. þm. kynnir sér greinargerðina.

Varðandi fjölda ríkja þá eru Evrópusambandsríkin, Ísland og Noregur aðilar að Dyflinnarsamningnum.

Varðandi það frv. sem er til umræðu vil ég taka fram að núna hefur verið útbýtt á þinginu frv. til nýrra laga um útlendinga. Það er stórt frv. sem á eftir að fjalla vandlega um í þingnefnd og á hinu háa Alþingi. Þessu frv. sem hér er til umræðu er ætlað að brúa bilið frá gildistöku Schengen-samningsins 25. mars nk. þar til stóra frv. tekur gildi. Í því frv. er kveðið á um gildistöku þann 1. júlí en það gæti auðvitað orðið eitthvað seinna ef frv. tekur langan tíma í meðferð.

Nánar tiltekið er þetta d-liður 46. gr. frv. sem er sambærileg við 1. gr. þessa frv. sem við ræðum um hér og 1. mgr. 26. gr. sem er sambærileg við 2. gr. frv. sem er fjallað um hér.

Ég vildi bara láta þetta koma fram til frekari skýringar á málinu, herra forseti.