Eftirlit með útlendingum

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 11:33:37 (2894)

2000-12-07 11:33:37# 126. lþ. 43.2 fundur 284. mál: #A eftirlit með útlendingum# (beiðni um hæli) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[11:33]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Svarið er jú. Við ætlum að vera í samfélagi þjóðanna og við ætlum að gera það með reisn. Þess vegna hef ég árum saman kallað eftir því í ræðu og riti að sá dómsmrh. sem hefur setið hverju sinni komi með frv. um réttindi útlendinga, af því að til þess að geta sett ákvæði eins og það sem hér er verið að biðja um í lög þarf að liggja fyrir hvernig við ætlum að meðhöndla það fólk sem fellur undir þessi ákvæði.

Og af því að svo mikið liggur á að framkvæma eða lögsetja þetta frv. fyrir jól þá hef ég áður bent á það að þessi Dyflinnarsamningur leysir af hólmi Schengen-samkomulag hvað þetta varðar og að í 7. gr. þess samnings er gert ráð fyrir að samið verði milli Evrópusambandsins og landanna tveggja sem eru utan þess um ábyrgð á meðferð hælisbeiðna og er slíkt samkomulag forsenda fyrir þátttöku Íslands og Noregs í Schengen-samstarfinu. Síðan kemur þessi setning í I. kafla í grg. frv.: ,,Samningaviðræðum um þátttöku landanna í samstarfi á grundvelli Dyflinnarsamningsins er ekki lokið.``

Herra forseti. Lái mér hver sem vill, mér finnst þetta öfug röð á verkefnum. Það er til vansa að við skulum ekki þegar hafa sett í lög hvernig við ætlum að meðhöndla það fólk sem hér ber að garði. Ég þarf ekki að endurtaka það en það þarf heldur ekki að leggja mér röng orð í munn eða gera mér upp hugrenningar sem ég hef ekki.