Eftirlit með útlendingum

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 11:35:49 (2895)

2000-12-07 11:35:49# 126. lþ. 43.2 fundur 284. mál: #A eftirlit með útlendingum# (beiðni um hæli) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[11:35]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Þótt núgildandi lög um eftirlit með útlendingum séu vissulega komin til ára sinna þá eru ýmis ákvæði þar sem við höfum í raun og veru getað látið duga okkur ágætlega í afgreiðslu á slíkum málum. Og Ísland hefur auðvitað fylgt alþjóðlegum skuldbindingum og flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna í afgreiðslum.

Ég vil einnig láta það koma skýrt fram að dómsmrn. er með sérstakan samning við Rauða kross Íslands um móttöku á flóttamönnum, t.d. um uppihald a.m.k. í þrjá mánuði auk greiðslu dagpeninga og líka samning um greiðslu lögfræðikostnaðar. Það er því alveg ljóst að þótt ekki sé búið að setja núna ný lög sambærileg við það nýja frv. sem hér kemur væntanlega fljótlega til umræðu þá hefur Ísland staðið ágætlega að verki hvað varðar móttöku flóttamanna.

Ég vil líka undirstrika að eitt helsta einkenni Dyflinnarsamningsins er einmitt að tryggja réttarstöðu flóttamanna og það er einmitt til þess að koma í veg fyrir það að ríki geti fríað sig ábyrgð, þannig að það komi skýrt fram, herra forseti.