Eftirlit með útlendingum

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 11:57:54 (2899)

2000-12-07 11:57:54# 126. lþ. 43.2 fundur 284. mál: #A eftirlit með útlendingum# (beiðni um hæli) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[11:57]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það kemur svolítið undarlega fyrir sjónir að hér skuli vera tvö frv. á ferðinni í þinginu á sama tíma um eftirlit með útlendingum. Skýringin er sögð sú að svo skammur tími sé til stefnu að nauðsynlegt sé að málið, sem er núna til umræðu, fái afgreiðslu mjög hratt vegna þess að hitt þurfi að vinnast lengur. Það hlýtur að vekja upp þær spurningar hvort hér hafi verið unnið eðlilega að málum og hvort menn hefðu ekki þurft að láta hendur standa betur fram úr ermum með aðalmálið þannig að það kæmist þá til umfjöllunar í nefndum þingsins fyrr.

Ég læt mér detta í hug að það gæti verið viðbótarástæða á ferðinni, sem sé sú að menn telji það ekkert endilega líklegt að stærra málið, sem bíður afgreiðslu, verði afgreitt í vetur. Ég býst við því að töluverð umfjöllun um það mál sé fram undan og hugsanlegt að það dragist. Þá þurfa menn að velta fyrir sér hvort það mál sem er til umræðu er nægileg breyting og það verður auðvitað gert í hv. nefnd þegar menn fara þar að skoða málið.

[12:00]

Mér finnst að þeir sem talað hafa í umræðunni hafi skilið aðalgrein þessa máls á mismunandi hátt. Hv. þm. Ögmundur Jónasson skildi greinina þannig að í raun væri réttarstaða Íslands til að koma af sér þeim sem kæmu til landsins að breytast. Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir skildi málið þannig að um væri að ræða rétt þeirra sem koma til landsins til að vera hér áfram svo framarlega sem aðrir séu ekki skyldugir til að fjalla um mál þeirra. Mér finnst að samkvæmt orðanna hljóðan og því sem um málið hefur verið sagt þá hljóti sá skilningur að vera réttari.

Ég óska þess að hæstv. ráðherra útskýri nánar hvernig þetta gengur allt saman upp og hvort ég hef skilið orð þessa frv. rétt. Hér stendur:

,,Útlendingur á ekki rétt á hæli hér á landi ef krefja má annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarsamningsins frá 15. júní 1990 um að taka við honum.``

Því má velta fyrir sér hvort svo afgerandi orðalag þýði að þessi útlendingur eigi ekki þennan rétt og hann eigi þar með að fara annað. Þyrfti að bæta þarna inn klásúlu um að það sé réttur ríkisins að hafa hann hér áfram eða fjalla um mál hans þó að svona sé að orði komist í aðaltillögugreininni?

Að vísu er kveðið á um það á öðrum stað að við getum fjallað um mál útlendinga en ég kasta því fram hvort tillögugreinin sé kannski óþarflega skorinorð hvað þetta varðar ef rétturinn er fyrir hendi þrátt fyrir þessa tillögugrein, hvort ekki eigi þá að bæta við frekari skýringum.

Því verður ekki á móti mælt að við höfum á undanförnum árum haft orð á okkur fyrir að vera nú ekki fyrstir til að taka við flóttamönnum og ekki tilbúnir að veita mönnum hér hæli. Um það eru auðvitað dapurleg dæmi hvernig Íslendingar hafa komið fram við flóttafólk sem hér hefur viljað fá hæli í gegnum árin, því miður. Þess vegna er full ástæða til að velta fyrir sér hvernig framkvæmdin er á hverjum tíma. Að mér læðist sá grunur að það geti farið eftir því hverjir eru við völd á hverjum tíma, hver er t.d. í sæti dómsmrh. Ekki veit ég hvort ég hef eitthvað fyrir mér í því en mér varð á að líta í frv. til laga um útlendinga sem á að koma til umfjöllunar í framhaldi af þessu frv. Þar eru athyglisverðar tölur frá Útlendingaeftirlitinu um fjölda synjana, t.d. um vegabréfsáritun. Þeim hefur fjölgað t.d. úr 21 árið 1995 upp í 186 á árinu 1999. Fróðlegt væri að fá að vita hvort þarna hafi orðið einhverjar breytingar. Um það verður sjálfsagt spurt í framhaldinu.

Synjunum um landgöngu hefur fjölgað frá 4 árið 1995 og upp í 34 á árinu 1999. Brottvísunum hefur fjölgað frá árinu 1995 úr 3 og fór upp í 9 á árinu 1998 en síðan hefur mönnum ekki verið vísað brott úr landinu, þar er talan núll árið 1999 samkvæmt þessari töflu. Það er full ástæða til þess að spyrja vegna þess að nýr dómsmrh. tók við á þessum tíma. Auðvitað getur þetta átt sér aðrar skýringar en þær að nýr yfirmaður hafi komið til starfa.

Ég er á þeirri skoðun að Íslendingar þurfi virkilega að fara yfir sín mál í þessum efnum. Ég velti því fyrir mér hvort ekki þurfi að fara mjög vandlega yfir slík mál eftir að þau hafa fengið afgreiðslu. Mér finnst að það ætti að geyma upplýsingar um þessi mál töluverðan tíma. Útlendingaeftirlitið eða dómsmrh. ætti að gefa út skýrslu um þessi mál samkvæmt skýrum reglum. Einnig ætti það að vera skylda Útlendingaeftirlitsins eða ráðuneytisins að sjá til þess að það fylgst verði með þeim sem vísað er úr landi um tiltekinn tíma. Afdrif þeirra gætu þar með orðið mönnum ljós. Það segði okkur um ákvarðanir okkar. Hvort við hefðum vísað einhverjum úr landi sem hefði átt að fá landvist. Við gætum lært af því. Eftir um tvö ár yrði væri síðan hægt að fara yfir þessi mál. Þá fengju menn að sjá hvað hefði orðið um þann sem bað um að fá að vera hér á Íslandi vegna þess að honum stafaði hætta af því að búa í landinu sem hann kom frá. Eitthvað þessu líkt þarf að gera svo að við getum staðið sæmilega í fæturna og verið ánægð með okkar hlut í þessum málum. Það er ekki nóg að segja mönnum að berja að dyrum annars staðar. Menn verða líka að bera ábyrgð á þeirri ákvörðun og horfast í augu við hvað hún getur haft í för með sér.

Ég ætla ekki að útiloka að nauðsynlegt sé að þetta frv. verði afgreitt. Hins vegar er nauðsynlegt að fara yfir það hvort gera eigi hlutina með áhrifaríkari hætti og klára aðalmálið. Menn voru hrelldir með því hér áðan að ef við ekki samþykktum þetta frv. þá kæmist Schengen-samkomulagið í uppnám. Það væri býsna alvarlegt mál. Þá mundu menn líklega missa leyfið til þess að vera á göngunum í húsinu þar sem aðalákvarðanirnar eru teknar.

Hér upplýsti hæstv. dómsmrh. með miklum tilþrifum að hægt hefði verið að bjarga málum fyrir nokkrum dögum varðandi útflutning á fiskimjöli af því að við höfðum þennan samning, Schengen-samning. Þess vegna fengu menn að skjótast um ganga í því húsi sem ákvarðanirnar voru teknar, náð tali af mönnum og komið í veg fyrir að bannað yrði að selja fiskimjöl frá Íslandi til Evrópulanda.

Það kann að vera brýnt að passa upp á Schengen-samkomulagið, þó ekki væri nema vegna þess að nú stendur yfir umræða um annað mál, um díoxíðmengun. Það getur vel verið að það þurfi að fylla ganga þessa húss til að koma í veg fyrir að það valdi okkur búsifjum, að of lág mörk verði sett fyrir díoxíð í mjöli. En það er kannski svolítill útúrdúr þó vissulega komi það upp í huga manns hvort Schengen-samkomulagið hafi þessi óbeinu áhrif og skipti svo miklu máli. Menn þurfa þá a.m.k. að gæta þess að rýra ekki möguleikann á að hafa áhrif.

Það var svo sem ekki meining mín að hafa mjög langt mál um það sem hér er lagt til. Ég vil hins vegar endurtaka að mér finnst ástæða til að ætla að menn hafi ekki staðið vaktina nægilega, úr því að hér eru komin tvö frv. um sama mál á borð þingmanna í einu. Ég skil satt að segja ekki, og vildi gjarnan fá útskýringar hæstv. ráðherra á því, hvers vegna ekki var hægt að ljúka umfjölluninni um þetta mál nægilega snemma til að hægt væri að afgreiða það og taka til eðlilegrar umfjöllunar í nefndinni. Er það kannski niðurstaðan, en ekki greint frá henni hér, að hæstv. ráðherra telji að málið verði ekki leitt til lykta í vetur og því sé nauðsynlegt að skjóta inn þessu máli, undanfara þess? Þetta eru spurningar sem menn hljóta að þurfa að fá svör við. Það er nauðsynlegt að menn viti hvernig á þessum undarlegu vinnubrögðum stendur.

Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um þetta. Ég vona að nefndin gefi sér tíma til þess að bera atriði málsins eitthvað saman og átta sig á því hvort hættan af þessu er jafnmikil og af er látið. Ég legg áherslu á að við lestur á þessum ákvæðum sem eru hér til umfjöllunar virðast mér þau réttarbót, a.m.k. trygging fyrir því að flóttamaður geti ekki lent í þeirri aðstöðu að hver vísi honum á annan. Niðurstaðan er þó alla vega að þessi ríki, með samningi sínum ákveði og við það sé staðið: Það fer enginn flóttamaður frá Íslandi nema fyrir liggi að einhver annar eigi að fjalla um mál hans. Það hlýtur að vera það sem hér á að lögfesta.