Eftirlit með útlendingum

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 12:11:52 (2900)

2000-12-07 12:11:52# 126. lþ. 43.2 fundur 284. mál: #A eftirlit með útlendingum# (beiðni um hæli) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[12:11]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Hér hefur skolað inn á borð til okkar þingmanna frv. til laga um breytingu á lögum um eftirlit með útlendingum sem varðar sérstaklega stöðu flóttamanna. Eiginlega kom það flatt upp á þingmenn þegar þetta litla frv. var lagt fyrir þingið án tengsla við aðrar breytingar á lögum um stöðu útlendinga hér á landi. Hins vegar hefur verið vísað til þess að við værum háð því að samþykkja þetta frv. fyrir áramót vegna Schengen-samkomulagsins sem ég stóð að að samþykkja og verð að taka ábyrgð á því.

Eins og áður sagði þá varðar þetta frv. sérstaklega stöðu flóttamanna. Við Íslendingar ættum sérstaklega að taka málefni flóttamanna til okkar því að við erum öll komin af flóttamönnum. Samkvæmt sögum, sem við viljum ekki vefengja mikið, komu Íslendingar hingað til lands sem flóttamenn, ýmist pólitískir flóttamenn undan harðræði Haralds hárfagra á sínum tíma eða efnahagslegir flóttamenn vegna þess að yngri synir fengu ekki jarðnæði í Noregi og urðu að leita annað eftir möguleikum til að komast af sem fjölskyldumenn.

Við teljum okkur nokkuð góð með að vera af þessum uppruna. Einkum og sér í lagi þess vegna ættum við að vera sérstaklega skilningsrík á stöðu pólitískra flóttamanna sem skolað hefur að ströndum landsins --- reyndar efnahagslegra flóttamanna líka --- á undanförnum árum og áratugum.

Pólitískir flóttamenn sækja venjulega um pólitískt hæli. Það hefur verið ákaflega lítið um að slíkt hafi verið veitt hér. Ég veit alla vega um einn sem hefur fengið hér stöðu sem pólitískur flóttamaður en fleiri hafa fengið hér dvaraleyfi úr þeim hópi og getað dvalið á Íslandi af öðrum orsökum. Mér finnst mikilvægt að hafa möguleika á að veita útlendingum pólitískt hæli hér á Íslandi. Við vitum að stjórnarfar víða um heim er með þeim hætti að fólk á fótum sínum fjör að launa og verður að fara úr landi. Þá er oft þannig ástatt í fyrsta griðlandi, sem gjarnan er nágrannaríki, að þar er mjög erfitt um vik fyrir fólk að setjast að. Þar er sjaldnast vinna og oft gríðarlegur fjöldi fólks í sömu stöðu og miklir erfiðleikar sem flóttafólkið lendir í og verður því að halda eitthvert annað.

[12:15]

Það þarf að skoða mál þessa hóps mjög vel, ég er ekki að mæla því í mót. Auðvitað getur í slíkum hópi leynst fólk sem er á flótta af öðrum orsökum og við höfum nýlega lent í slíku dæmi hér á landi og eru mýmörg dæmi um slíkt erlendis. En ég tel að hvort sem fólk kemur hingað sem pólitískir eða efnahagslegir flóttamenn þá eigum við að skoða mál þeirra af fyllstu sanngirni. Við eigum að skilja að brottvísun þýðir oft að fólki er vísað aftur í sömu hörmungarnar og það er að reyna að flýja.

Mér er mjög minnisstætt að nú í vetur leitaði til mín á skrifstofuna fjölskylda sem var flóttafólk frá Albaníu, hafði flúið til Ítalíu og reyndi að komast til Íslands og var með fölsuð skilríki. Þessu fólki hafði verið vísað á brott og það leitaði til alþingismanna í vandræðum sínum. Fólkið hafði dvalið hér um tíma og m.a. gert mikið í því að læra íslensku, börnin höfðu lært íslensku nánast alveg og hjónin sem um ræðir voru langt komin með að verða nokkuð sjálfbjarga á íslensku. Allt það fólk sem hafði haft afskipti af þeim hér á landi gaf þeim mjög góða umsögn. Samt var þessu fólki vísað á brott, og ég verð að segja að ég fann ákaflega mikið til með því og það voru fleiri sem höfðu kynnt sér þetta mál sem voru mjög miður sín yfir þeim brottrekstri.

Mér finnst að við þurfum að muna að þó að fólk komi hingað vegabréfslaust eða á fölsuðum vegabréfum þá á það sér eðlilegar skýringar þegar um pólitíska flóttamenn er að ræða eða getur átt sér eðlilegar skýringar. Við þurfum að taka á móti öllu fólki sem hingað leitar með reisn og taka vel á málum þess, af miklu réttlæti og samkvæmt skýrum reglum sem gilda fyrir alla og öllum eru auðskiljanlegar. En það hefur viljað brenna við að svolítið væri um geðþótta\-ákvarðanir innan þessa geira og ég vona að þegar búið verður að fara yfir og samþykkja ný lög um stöðu útlendinga á Íslandi verði þeim geðþóttaákvörðunum útrýmt.

Ég hef því miður ekki getað kynnt mér þessi frv. af því að ég sá fyrst í hornið á þeim á þessum morgni en ég vona svo sannarlega að í þeim felist réttarbót fyrir þá sem hingað koma því við verðum að muna, t.d. þegar um er að ræða fólk sem leitar hér eftir vinnu og betri lífskjörum en heimalönd þeirra bjóða upp á, að í þeim hópi er oft gríðarlega góður efniviður. Þarna er fólk sem oft og tíðum er mjög vel menntað í sínu heimalandi, það ber öllum saman um að að stærstum hluta sé þarna um afburða vinnuafl að ræða. Margir hagfræðingar hafa haldið því fram að sá hagvöxtur sem hefur verið hér á landi að undanförnu sé ekki síst vegna þess að við höfum getað byggt á þessu erlenda vinnuafli. Það er hart að segja það en þetta eru staðreyndir málsins. Við Íslendingar eigum því að gera allt sem við getum til að búa vel að þessu fólki og taka vel á móti því þegar það kemur hingað. Mér finnst það ekki nógu góðar móttökur jafnvel þó að við gefum því súkkulaði og kleinur við komuna að senda það síðan úr landi.

Í mínum huga eru góðar móttökur þær að staða þessa fólks og umsókn þeirra um dvalarleyfi sé tekin til skoðunar af mikilli sanngirni. Að leitað sé eftir leiðum til að veita því fólki dvalarleyfi á Íslandi og leyfi til að vinna ef ekki kemur eitthvað í ljós í rannsókn, sem auðvitað þarf að fara fram, sem leiðir líkur að því að þetta fólk eigi eitthvað brogaðan feril að baki, t.d. að um sé að ræða sakamenn sem eru að reyna að komast brott frá réttlátri málsmeðferð. Auðvitað höfum við ekki mikla samúð í slíkum tilfellum. En um það er yfirleitt ekki að ræða. Yfirleitt er um að ræða fólk sem er á flótta af gildum ástæðum.

Við skulum hafa það hugfast að við Íslendingar tökum þátt í norrænu og evrópsku samstarfi um að berjast gegn útlendingaandúð. Við þurfum að taka okkur mjög á þar vegna þess að við stöndum ekki nógu vel að málum eða höfum ekki gert að búa þeim útlendingum allt í haginn sem hingað koma og setjast hér að og t.d. að upplýsa Íslendinga nægilega vel um hvílík fáfræði og sveitamennska það er að vera með þá andúð sem stundum er höfð hér uppi á Íslandi gegn þessu fólki að ástæðulausu.

Það frv. sem liggur hér frammi er svohljóðandi eða frumvarpsgreinin sem er til umræðu:

,,Útlendingur á ekki rétt á hæli hér á landi ef krefja má annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarsamningsins frá 15. júní 1990 um að taka við honum.``

Ég verð að segja að þessi grein er á mjög stífum gormum eins og hún kemur fyrir og það þarf náttúrlega að taka hana til endurskoðunar og reyna að hnoða hana eitthvað upp á nýtt í nefnd milli umræðna ef ná á því markmiði sem hæstv. dómsmrh. lýsti áðan í andsvari um að markmið þessa frv. væri að bæta rétt flóttamanna. Vegna þess að eins og frv. er orðað vísar það beint í það að því fólki sem kemur til Íslands og sækir um stöðu sem pólitískir flóttamenn sé vísað beint til baka vegna landfræðilegrar legu Íslands. Hingað til lands kemur fólk ekki, nema þá á flekum eða eitthverju slíku, öðruvísi en með hefðbundnum farartækjum og þau koma öll frá löndum sem eru innan Schengen-samstarfsins eða þá frá Bandaríkjunum og ekki vænti ég þess nú að Íslendingar eigi von á svo mörgum pólitískum flóttamönnum frá Bandaríkjunum. Það mun að vísu liggja fyrir ein umsókn og kannski væri hægt að veita henni afgreiðslu með bravúr á þessum grundvelli, en ég held að meginstraumurinn sem hingað liggur af pólitískum flóttamönnum verði ekki frá Bandaríkjunum. Ef maður skilur 1. gr. frv. eftir orðanna hljóðan getur maður ekki skilið hana öðruvísi en svo að hreinlega eigi að senda þetta fólk til baka til þess lands sem það kemur frá.

Við komumst í mjög fínan selskap með því að undirgangast þennan samning því að undir hann hafa skrifað hvorki meira né minna en helstu þjóðhöfðingjar Evrópu: Hans hátign konungur Belgíu, hennar hátign drottning Danmerkur, forseti Sambandslýðveldisins Þýskalands, forseti lýðveldisins Grikklands, hans hátign konungur Spánar, forseti lýðveldisins Frakklands, forseti Írlands, forseti ítalska lýðveldisins, hans konunglega tign stórhertoginn af Lúxemborg, hennar háting drottning Hollands, forseti portúgalska lýðveldisins, hennar hátign drottning Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands, og þarna komum við þá til viðbótar og er svo sem ekki leiðum að líkjast. Ég vil þó benda á að þau lönd sem ég var að telja hér upp hafa náttúrlega allt aðra landfræðilega legu. Stundum hefur verið sótt um sérákvæði fyrir Ísland varðandi hina ýmsu samninga, evrópska og alþjóðlega, og var sérstaklega eitt ákvæði til umræðu í gær um Kyoto-bókunina. Ég tel því að kannski hafi sjaldan verið meiri ástæða til að sækja um sérákvæði fyrir Ísland en í þessu tilviki, ef það er skilyrði af samningsins hálfu að við orðum þetta svo eins og hér er gert ráð fyrir.

Ef hins vegar er hægt að milda eða breyta þessu eitthvað í nefnd, sem ég vona svo sannarlega, þá horfir málið náttúrlega öðruvísi við. En eins og þetta stendur nú og blasir við í dag nær það ekki þeim markmiðum sem hæstv. dómsmrh. lýsti að væri meining hennar að ná fram með undirritun þessa samkomulags.