Þjóðminjalög

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 13:01:35 (2904)

2000-12-07 13:01:35# 126. lþ. 43.3 fundur 223. mál: #A þjóðminjalög# (heildarlög) frv., 224. mál: #A safnalög# (heildarlög) frv., 225. mál: #A húsafriðun# (heildarlög) frv., 226. mál: #A menningarverðmæti# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[13:01]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ástæðurnar fyrir þessu eru þær að þegar menn ákváðu að flytja frv. til safnalaga sem tæki til þeirrar meginsafnastarfsemi sem menn telja að falli undir slíkt hugtak, þá var litið til þessara þriggja safna: Þjóðminjasafns Íslands, Listasafns Íslands og það sem hér heitir Náttúruminjasafn Íslands.

Það var samdóma álit þeirra sem störfuðu í þeirri nefnd sem vann að þessu --- hægt er að sjá á bls. 4 í frv. hverjir þeir voru, að æskilegt væri að sambærilegar reglur giltu um öll þessi söfn. Það er verið að setja slíkar reglur um þessi söfn með safnalögunum. Síðan er gert ráð fyrir því að sett verði sérstök löggjöf um Náttúruminjasafnið, eins og kemur fram í ákvæði til bráðabirgða, eins og við höfum sérstök lagaákvæði um Listasafn Íslands og um Þjóðminjasafn Íslands. Ekki er því unnt að fullyrða neitt um einhver skil á milli Náttúrufræðistofnunar og Náttúruminjasafnsins. Það á eftir að vinna þá útfærslu nánar við gerð sérlaga um Náttúruminjasafn Íslands.

En þegar ég las lögin um Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúrustofu og með hliðsjón af ágætum orðum hv. þm. sem er líffræðingur og náttúrufræðingur, þá vekur það athygli mína hvað ákaflega lítið er gert úr safnaþættinum í þessum lögum þannig að ég held að með þessu ákvæði og því frv. sem ég er að flytja hér sé kannski í fyrsta sinn frá því menn hófu þessa starfsemi verið að skipa Náttúruminjasafninu sess í okkar stjórnkerfi, en það er alls ekki gert í lögunum um Náttúrufræðistofnun Íslands.