Þjóðminjalög

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 13:05:53 (2906)

2000-12-07 13:05:53# 126. lþ. 43.3 fundur 223. mál: #A þjóðminjalög# (heildarlög) frv., 224. mál: #A safnalög# (heildarlög) frv., 225. mál: #A húsafriðun# (heildarlög) frv., 226. mál: #A menningarverðmæti# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[13:05]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að hv. þm. vilji ekki hlusta á rökin og þess vegna heyri hann þau ekki. En þannig er að ég held að hv. þm. hafi ekki verið kominn í salinn þegar ég fór yfir þetta mál upphaflega og rakti hér þau rök sem að baki búa. Ég tel ákaflega brýnt að skipa þessum málum eins og hér er gert til þess að staða Náttúruminjasafns Íslands sé skýr. Ég sagði í framsöguræðu minni að með orðinu rannsóknir í frv. væri ekki verið að gera ráð fyrir því að þetta safn færi inn á verksvið Náttúrufræðistofnunar Íslands eða Náttúrustofu. Hins vegar er óhjákvæmilegt fyrir alla safnastarfsemi að heimild til rannsókna sem snerta starfsemina sem slíka sé fyrir hendi án þess að menn fari inn á annarra manna verksvið.

Ég verð að segja að mér finnst þessi málflutningur hv. þm. heldur léttvægur miðað við þá stöðu mála sem þetta ágæta safn er í núna. Í d-lið 4. gr. laga um Náttúrufræðistofnun Íslands segir, með leyfi forseta, að stofnunin hafi það hlutverk:

,,d. að styðja við uppbyggingu sýningarsafna um náttúrufræði með upplýsingum og ráðgjöf og miðla þekkingu um íslenska náttúru til skóla, fjölmiðla og almennings,``

Ég sé ekki að sú reisn sé yfir þessu sem hv. þm. er að tala um að nauðsynleg sé ef þetta safn er slík undirstaða fyrir þá starfsemi sem Náttúrufræðistofnun á að sinna. Mér finnst þetta því léttvægur málflutningur miðað við stöðu mála eins og hún er og ég tel að með frv. sem við erum að flytja hér sé þessu safni skipaður sá sess sem því ber, fyrir utan önnur hagkvæmnisrök sem ég hef ekki tíma til að rekja hér. Ég get komið inn í umræðurnar síðar í dag um þessi mál og farið nánar út í þetta sem ég mundi þá láta koma fram.