Ráðstafanir í húsnæðismálum

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 13:32:29 (2909)

2000-12-07 13:32:29# 126. lþ. 43.94 fundur 179#B ráðstafanir í húsnæðismálum# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[13:32]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ástæðan fyrir því að ég óska eftir utandagskrárumræðu um húsnæðismál er tvíþætt.

Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að taka húsnæðismálin sérstaklega upp utan dagskrár í ljósi þess að ástandið er sennilega orðið alvarlegra en dæmi eru um í mjög langan tíma. Mér sýnist afleiðingar kerfisbreytinganna sem lögfestar voru fyrir tveimur árum verri en verstu hrakspár sem þá voru uppi gerðu ráð fyrir.

Hin ástæðan er sú að samkvæmt fjárlagafrv. sem nú hefur farið í gegnum tvær umræður --- aðeins lokaumræðan á morgun er eftir --- þá liggur ekkert fyrir um hvernig stuðningi ríkisins við félagslegar leiguíbúðir verður háttað annað en til standi að skera framlag sem stóð í 100 millj. kr. niður í 50 millj. kr.

Það hefur verið lífsins ómögulegt að toga það upp úr ríkisstjórninni, hæstv. félmrh. og hæstv. fjmrh. sem greinilega hafa deilt um það hvernig á skuli haldið. Það hefur verið með öllu ógerlegt að fá fram hvernig þessum skelfilega litlu fjármunum skuli ráðstafað. Í fjárlagafrv. er talað um að stuðningurinn skuli vera í formi stofnkostnaðarstyrkja eða húsaleigubóta.

En hvernig er ástandið í húsnæðismálum? Hjá Félagsþjónustunni í Reykjavík eru 571 á biðlista, 571 einstaklingur og fjölskyldur því að þetta er fleira fólk. Þarna eru barnmargar fjölskyldur, hjá Öryrkjabandalaginu 400, hjá Félagsstofnun stúdenta bíða 200 manns eftir húsnæði, hjá Byggingarfélagi námsmanna eru 70 á biðlista og hjá einstæðum foreldrum 30. Þetta eru ekki tæmandi listar og hér var vísað í Félagsþjónustuna í Reykjavík, ekki til annarra sveitarfélaga þar sem víða eru einnig biðlistar. Það er ljóst að þúsundir manna eru í húsnæðishrakningum og þegar þessar biðraðir eftir félagslegu leiguhúsnæði eru skoðaðar þá kemur í ljós að mörg hundruð manns ekki síst á suðvesturhorninu eru bókstaflega á götunni.

Þessir biðlistar segja aðeins hálfan sannleikann því að þeir sem ekki komast inn í leighúsnæði basla margir hverjir við að kaupa íbúðir á markaðsvöxtum. Húsbréfin eru á 5,1% vöxtum auk verðbóta sem eru önnur 5% til viðbótar og síðan koma afföllin sem nú eru um 10%. Þau þrýsta verðinu upp og auka enn á klyfjarnar.

Hér með er ekki öll sagan sögð því að samkvæmt núverandi húsnæðislöggjöf fær enginn fullt lán. Það er lágmark að einstaklingur greiði 10% sjálfur og á hvaða kjörum skyldi það vera? Þeir sem ekki eiga eignir verða að sætta sig við víxillán. Þau eru núna á um 20% vöxtum. 200 þús. kr. á ári til bankans fyrir hverja milljón að láni, 400 þús. fyrir 2 millj. Þetta eru óbærilegar klyfjar, enda margt fólk að brotna undan þeim.

Hvað skyldi ríkisstjórnin ætla að gera? Í atkvæðagreiðslu við 2. umr. fjárlaga í fyrradag samþykkti stjórnarmeirihlutinn á Alþingi að skerða framlag til vaxtabóta um 400 millj. kr. Þetta eru skilaboðin til húsnæðiskaupenda, blaut tuska í andlitið. Gagnvart félagslegu leiguhúsnæði eru engin svör önnur en að fella tillögu frá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði um 800 millj. kr. til lausnar þessum bráða vanda. Að sönnu stendur ekki á lánveitingum til félagslegs leiguhúsnæðis. Þar er talað um rúma 3 milljarða en á markaðsvöxtum. Ég vil vekja athygli á því að ef stuðningurinn við uppbyggingu félagslegs húnæðis verður í formi húsaleigubóta, eins og talað er um sem valkost, er tilkostnaðinum að hluta velt yfir á sveitarfélögin sem borga 40% af húsaleigubótum. Gerir hæstv. félmrh. sér grein fyrir því hvernig ástandið er orðið? Er hann meðvitaður um biðraðirnar eftir leiguhúsnæði? Veit hann að húsaleigan er a.m.k. 1.000 kr. á hvern fermetra? Það eru 60 þús. kr. á mánuði fyrir litla tveggja herbergja íbúð. Hefur hann athugað vaxtakjörin nýlega? Spurningar mínar til hæstv. ráðherra eru eftirfarandi:

Hefur ríkisstjórnin áform um bráðaaðgerðir í húsnæðismálum í ljósi langra biðraða eftir leiguhúsnæði og erfiðra lánskjara á húsnæðismarkaði?

Hvaða áform hefur ríkisstjórnin um fyrirkomulag á stuðningi við félagslegt leiguhúsnæði?

Hefur ríkisstjórnin áform um frekari stuðning við húsnæðiskaupendur eða á að halda áfram að skera niður?