Ráðstafanir í húsnæðismálum

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 13:43:07 (2911)

2000-12-07 13:43:07# 126. lþ. 43.94 fundur 179#B ráðstafanir í húsnæðismálum# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[13:43]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Í skýrslu starfshóps félmrh. sem skilaði niðurstöðu í vor kemur fram að 1.900 einstaklingar og fjölskyldur eru á biðlista eftir leiguíbúðum hjá sveitarfélögum og félagasamtökum. Hækkun vaxta á lán til leiguíbúða úr 1%, eins og þeir hafa verið undanfarin 25 ár, í 3,9% á þessu ári eru að ganga að leigumarkaðnum dauðum. Nú stefnir í að náðarhöggið verði veitt með því að hækka enn vextina, nú nálægt markaðsvöxtum. Með hvaða afleiðingum? Afleiðingarnar birtast í skýrslu ráðherrans, herra forseti. Leiga á íbúð sem kostar 7,6 millj. kr. mun hækka um 80%, úr 25 þús. kr. í 45 þús. kr. á mánuði að frádregnum húsaleigubótum eftir skatt, eða um 20 þús. kr. á mánuði verði ekkert að gert. Á lítilli leiguíbúð mun leigan hækka um 20 þús. kr. verði ekkert að gert. Í skýrslu ráðherrans er lagt til að húsaleigubætur og stofnstyrkir til framkvæmdaaðila sem byggja leiguíbúðir komi í staðinn.

Svikin loforð ráðherrans við láglaunafólk sem þúsundum saman stendur í biðröð eftir leiguíbúðum birtast í fjárlagafrv. Framlög þar duga fyrir 100 þús. kr. stofnstyrk á hverja leiguíbúð þegar útreikningar sýna að 2--3 millj. þarf í stofnstyrk á hverja íbúð til að leigjendur verði jafnsettir ef vextir hækka t.d. í 5%. Fjárlögin segja 50 millj. kr. í stofnstyrki en þar þarf 675 millj. á næsta ári til að halda sambærilegri niðurgreiðslu á vöxtum til leiguíbúða við það sem þeir voru árið 1998. 675 millj. þarf í stofnstyrki en fjárlögin gera ráð fyrir 50 millj. Það er vægast sagt grimmúðlegt og sótsvartur blettur á þessari ríkisstjórn að algert neyðarástand ríkir hjá mörg hundruð láglaunafjölskyldum í húsnæðismálum.

Herra forseti. Hæstv. félmrh. ætti að skammast sín.