Ráðstafanir í húsnæðismálum

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 13:45:29 (2912)

2000-12-07 13:45:29# 126. lþ. 43.94 fundur 179#B ráðstafanir í húsnæðismálum# (umræður utan dagskrár), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[13:45]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Félagslega íbúðakerfið eins og við þekktum það fyrir 1999 var komið að fótum fram af mörgum ástæðum. Það er kannski ekki ástæða til að rekja það hér en það var ástæða til þess að breyta um kerfi og það gerðum við með núverandi lögum frá 1998.

Byggingarsjóður verkamanna, sem sá um lánveitingar til félagslegra eignaríbúða og félagslegra leiguíbúða, stefndi þráðbeint í gjaldþrot. Það lá fyrir að þurft hefði að borga gífurlegar fjárhæðir í sjóðinn úr ríkissjóði til að viðhalda því kerfi sem betur væri varið til annarra hluta. Það lá ljóst fyrir að kerfið hefur ótal galla bæði fyrir sveitarfélög og þá einstaklinga sem áttu að njóta góðs af kerfinu. Kerfið var barn síns tíma og mjög erfitt var að fá heildarsýn yfir þá félagslegu aðstoð sem veitt var með því kerfi.

Það er mun eðlilegri leið sem nú er farin, að Íbúðalánasjóður sé rekinn þannig að hann standi undir sér. Íbúðalánasjóði er ætlað að veita lán, m.a. til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka til byggingar og kaupa á leiguhúsnæði. Einstaklingarnir fá síðan húsaleigubætur til að koma á móti þeim kostnaði sem þeim er ofviða vegna leigugjaldanna. Það er mun eðlilegra kerfi sem miðar við að fjárhagur og fjölskyldusamsetning viðkomandi sé metin. Afkastageta núverandi kerfis er mun meiri en gamla kerfisins og niðurstaðan er því, hæstv. forseti, að núverandi kerfi aðstoðar mun fleiri en áður var og þess vegna erum við betur stödd en við vorum í tíð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem félmrh.